Hann virðist ætla að hefjast enn á ný, söngurinn um að jólin séu hátíð kaupmanna, sem setji jólaskrautið allt of snemma upp, drekki öllum í auglýsingum og telji fólki trú um að það sé algjörlega bráðnauðsynlegt að eignast alls konar óþarfa.
Og nú hefur enn einu sinni verið gerð könnun á því hve miklu Íslendingar muni eyða í jólahaldið. Rannsóknarsetur verslunarinnar segir að það verði um 8 milljarðar króna. Reiknað er með að þessi mikla verslun fari á skrið á nýbyrjuðu kortatímabili. Íslendingar ætla víst flestir að kaupa jólagjafir fyrir um 26 til 50 þúsund krónur, en tæpur fjórðungur þjóðarinnar reiknar með að nota 51 til 75 þúsund krónur í gjafir.
Jólin eru hátíð ljóss og friðar. Þau eru hátíð barnanna. Það má vel vera að sumum þyki þau líka vera hátíð kaupmanna og að þannig séu þau slæm birtingarmynd neyslusamfélagsins. Þar er ég algjörlega ósammála.
Í desember vil ég fara á jólatónleika, sjá jólakvikmyndir, kaupa jólaskraut og skreyta allt hátt og lágt heima hjá mér. Ég vil kaupa sérstakt jólaskraut til að punta nýja herbergið stelpnanna minna og útbúa fallegan aðventukrans á stofuborðið. Ég vil fara með stelpurnar mínar á jólaleikrit og kaupa handa þeim fín og falleg jólaföt. Ég vil hlaupa á milli verslana og finna þessa einu réttu jólagjöf handa konunni, dætrunum, vinum og vandamönnum. Ég vil rogast með hvern innkaupapokann á eftir öðrum út úr matvöruversluninni, með hangikjöt og hamborgarhrygg. Ég vil kaupa stóru úthafsrækjurnar af samstarfskonu minni, því þær verða girnilegur forréttur. Ég vil hafa uppi á honum Ævari og kanna hvort hann fer til rjúpna, svo veislumaturinn á aðfangadagskvöld verði eins og hann hefur alltaf verið, allt frá því að pabbi minn fór á fjöll með haglabyssuna sína. Ég vil norpa í kuldanum við jólatréssöluna, mæla og spá þar til ég hef fundið fallegasta tréð í stofuna heima. Ég vil sitja fram á nótt, skoða jólakortin sem ég fékk í fyrra og skrifa ný til fólks um allan heim, sem ég sinni því miður ekki sem skyldi aðra mánuði ársins. Ég vil koma heim úr vinnunni og sjá lítinn bunka af jólakortum á mottunni undir póstlúgunni. Ég vil fara í ÁTVR og kaupa gott púrtvín til að sötra með köldum gestum sem kíkja í aðventuheimsókn. Ég vil skúra allt og skrúbba, svo heimilið verði glansandi fínt um jólin. Ég vil eyða einum degi í piparkökubakstur með Kötu og stelpunum. Ég vil líka baka smákökur eins og mamma mín bakaði alltaf. Ég vil kaupa fínasta pappír og kort til að jólapakkarnir verði glaðlegir og fallegir. Og þessa aðventuna vil ég líka fara til Kaupmannahafnar og eiga náðuga stund í julefrokost með Kötu á Det Lille Apotek.
Auðvitað sýnir flest í þessari upptalningu botnlausa neysluhyggju, ef fólk kýs að líta svo á. Kona, sem búsett er í útlöndum og hefur sjálf yfirdrifið að bíta og brenna, sagði eitt sinn við mig að hún væri fegin að vera ekki hér á landi í desember, því hérna væri svo brjálað stress. Hún treysti sér bara ekki til að horfa upp á þetta innkaupabrjálæði, þar sem fólk stundaði hamslausa eyðslu í tilefni jólanna.
Við þessu á ég bara eitt svar: Ég kýs að eyða mínum eigin peningum, sem ég hef aflað á heiðarlegan hátt, í mína þágu og fjölskyldu minnar á jólunum. Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja, hvers vegna annað fólk hefur svo þungar áhyggjur af innkaupum mínum í desember. Sjaldnast gerir þetta sama fólk athugasemdir þegar ég kaupi mér flík, eða þegar fjölskyldan fer í sumarfrí. Af hverju í ósköpunum er þá opið veiðileyfi á mig og aðra neytendur í desember? Er kannski skemmtilegra að varpa skugga á jólagleðina en venjulega, hégómlega gleði yfir einhverju öðru?
Og hvers vegna þarf ég að sitja undir því að þessi "eyðsla" mín í desember varpi á einhvern hátt skugga á tilefni sjálfra jólanna? Fær það staðist að innkaupaferðirnar mínar rýri gildi trúarinnar, dragi úr mikilvægi aðfangadags og jóladags? Er ekki hægt að gera sér dagamun, en minnast þess samt af hverju við höldum jól?
Ég þarf vonandi ekki að taka það sérstaklega fram, en geri það nú samt, að ég tala ekki fyrir hönd þeirra sem eiga á einhvern hátt um sárt að binda eða geta ekki notið jólanna sem skyldi, hvort sem það er vegna veikinda, fátæktar eða af öðrum ástæðum. Sá hópur er heldur ekki sá sem hæst hefur í desembermánuði um "kaupmannajól" og "neyslubrjálæði". Og auðvitað eru fjölmargir sem láta eitthvað af hendi rakna í desember til þeirra sem standa verr að vígi. Og gera það ekki síst af því að það er sjálfur jólamánuðurinn.
Ég ætti nú ekki að eyða öllu púðrinu í að býsnast yfir þessu tuði margra um eyðslu og neyslukapphlaup fyrir jólin. Líklega ætti ég að spara eitthvað fyrir nýárið. Því þá eru Íslendingar víst svo ægilega vitlausir að þeir eyða milljónum á milljónir ofan í alls konar flugelda og blys. Og kaupa enn á ný veislumat. Ég geri það svo sannarlega og læt fara alveg ægilega í taugarnar á mér alla þá sem segja, drjúgir á svip, að þeir ætli nú bara að fylgjast með nágrönnunum brenna peningunum sínum. Ekki yrði nú ljósadýrðin mikil ef allir hugsuðu svona.
Ég harðneita því að ég sé í einhverju kapphlaupi við Mammon í desember. Hins vegar sakar dálítið skemmtiskokk með honum ekki nokkurn mann. Þvert á móti, í desember lífgar það skokk upp á sál og líkama og fátt fær slegið á gleði mína. Nema fólkið sem sífellt sér sig knúið til að býsnast yfir hvernig aðrir kjósa að eyða eigin peningum.
Friday, November 17, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Og hana nú!!!!!
:)
Kv. Magga
Post a Comment