Í leiðindaveðrinu síðasta sunnudag ákvað ég að skreppa í bíó með dætrum mínum. Fyrir valinu varð teiknimyndin Bæjarhlaðið, eða Barnyard, eins og hún heitir upp á ensku.
Ég hefði betur kynnt mér um hvað þessi mynd fjallaði áður en ég ákvað að sýna tveimur fimm ára stelpum þessi ósköp. Á auglýsingaspjöldum fyrir myndina voru stórar og stæðilegar kýr og mig rámaði í að hafa séð sjónvarpsauglýsingu, þar sem ein kýrin hermdi eftir bréfbera þegar hann sá ekki til. Meira vissi ég ekki.
Svo hófst blessuð myndin og forystukýrin hóf upp raust sína. Dimma og mikla karlarödd. Forystukýrin, sem stóð þarna á afturlöppunum, með júgur út í loftið og hélt þrumandi ræðu yfir hinum dýrunum á bænum, hét Brjánn.
Brjánn? Kýrin Brjánn, en ekki nautið Brjánn? Ójá.
Það fyrsta sem mér datt í hug var að íslenska talsetningin hefði misheppnast svona heiftarlega. Karlmaður hefði verið látinn lesa inn rödd kýrinnar fyrir einhvern undarlegan misskilning. En svo skokkaði "sonur" Brjáns, hann Oddur, inn í myndina með spenana hoppandi og þá var mér allri lokið.
Í ljós kom að hver einasta kýr, sem eitthvað kvað að í myndinni, var karlkyns. Leiðtoginn Brjánn gætti dýranna á bænum og fórnaði lífi sínu í baráttu við sléttuúlfa. Oddur vildi bara skemmta sér alla daga, en tók auðvitað að sér forystuhlutverkið þegar nauðsyn krafði. Hann hljóp þó aðeins út undan sér þegar hann fór í mikinn leiðangur á bíl og fékk þrjár aðrar kýr með sér. Þarna sátu þessar kýr, með júgrin sín, óku bíl, töluðu stórkarlalega saman og duttu í það með því að drekka mjólk!
Brjánn var ekki ánægður með ábyrgðarlaust líferni Odds og reyndi mikið að snúa honum af þessum villigötum. Hann minnti son sinn líka á eitthvert atvik, þegar hann hafði talið hann vera stelpu. Það var greinilega það allra versta. En kannski hefur Brjánn blessaður ruglast af því að sonur hans var með júgur. Hver veit?
Þarna voru líka fleiri karlverur, til dæmis var yfirvegaði og klári asninn auðvitað karlkyns og þarna var hundur og svín og besti vinur Odds, skemmtilega músin, var líka karlkyns.
En þótt allar hetjurnar og töffararnir í myndinni hafi verið karlkyns, þá slæddust einstaka kvenverur með. Fyrsta er að telja ungu kúna, sem kom á bæinn og heillaði Odd frá fyrsta degi. Þau sátu saman og ræddu um lífið, bæði með júgrin sín út í loftið, en kýrin unga með litla bleika slaufu við annað eyrað. Líklega svo við bíógestir gætum áttað okkur á því að hún væri kvenkyns.
Síðar í myndinni bar þessi kvenlega kýr litlum kálfi, sem kom í heiminn með júgur, eins og allar hinar kýrnar. Oddur, hinn nýi leiðtogi, var að vonum afskaplega stoltur af nýfæddum "syni" sínum. Það voru sem sagt engin takmörk fyrir vitleysunni. Og aldeilis hentugt fyrir Odd hinn hugumstóra og júgurmikla að kýrin var kelfd þegar hún kom á bæinn.
Aðrar kvenverur í myndinni voru kven-kýr-vargurinn óviðkunnanlegi, sem var besta vinkona kýrinnar með bleiku slaufuna, agnarsmái og ofurkrúttlegi hænuunginn Maja, hjálparvana hænurnar sem verja þurfti dag og nótt fyrir gráðugum sléttuúlfum og bóndakonan á næsta bæ, sem var sínöldrandi taugahrúga og hrakti mann sinn í endalausa bjórdrykkju.
Einn ungur hani var í hópnum. Sá átti erfitt með að gala, en auðvitað fann hann röddina sína á ögurstundu, á meðan hænurnar gögguðu af skelfingu og gerðu ekkert af viti.
Mér skilst að þessi mynd hafi átt töluverðum vinsældum að fagna í bíóhúsum heimsins. Það ætti ekki að koma mér á óvart, enda virðast engin takmörk fyrir því bulli sem fólk gleypir við frá Hollywood. Einhvers staðar sá ég haft eftir höfundi myndarinnar, sem jafnframt er leikstjóri hennar, að hann hefði sett júgur á allar "karlkyns kýrnar", af því að júgur væru fyndin. Það var og.
Hér eftir ætla ég hins vegar að kynna mér myndirnar í bíóhúsunum fyrirfram. Ég ætla ekki oftar með fimm ára systur á myndir, þar sem allar kvenverur eru hjálparlausar og/eða vitlausar og þurfa að vera upp á náð og miskunn annarra komnar. Þær fá alveg nóg af slíkum skilaboðum frá umheiminum, þótt við förum ekki líka að borga okkur inn á slíkan glórulausan bjánagang. Af hverju í ósköpunum máttu kýrnar hugprúðu ekki vera kvenhetjur? Hugrakkar og kraftmiklar, með júgrin sín.
Þegar við mæðgur komum heim eftir sýninguna ræddi ég við þær um myndina. Ég bað þær að nefna mér einhverja "stelpu" eða "konu" í myndinni og þær mundu strax eftir Maju litlu. Sem var líklega illskásti kosturinn af þeim fáu kvenkyns, sem myndin bauð upp á. Margréti fannst frábært hvað Maja var hugrökk þegar sléttuúlfurinn ætlaði að éta hana. "Hún var rosalega reið og sagði að hann væri vondastur í heimi," sagði Margrét og var stolt af uppreisnaranda Maju.
Eftir nokkrar umræður í viðbót um hugrekki Maju, en jafnframt hjálparleysi, komst Margrét að þeirri niðurstöðu að það hefðu átt að vera einhverjar stelpur í dýraliðinu sem bjargaði hænunum, því "stelpur geta alveg bjargað."
Elísabet systir hennar var dálítið þögul, aldrei þessu vant. Þegar ég gekk á hana og spurði af hverju hún héldi að engar stelpur hefðu verið í hópi hinna hugrökku bjargvætta svaraði hún: "Kannski hafa bara strákar gert þessa mynd."
Friday, November 10, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
skelfing getur þú látið forheimsku Hollívúdd fara í þínar feminísku taugar, kæra Ragnhildur. En það er skiljanlega erfitt að ætla að útskýra svona dellu fyrir saklausum smábörnum. Hvar er nú kvikmyndaeftirlitið þegar þörf er á_?? Allur fjandinn flæðir eftirlitslaust þá sem varnarlausastir eru. Gott tilsvar hjá þeirri stuttu, hún er þegar farin að skilja hvað "strákar" geta verið vitlausir. kveðja til þeirra beggja, Frændi
Post a Comment