Hún er heldur undarleg, sú árátta okkar að þurfa sífellt að hafa vit fyrir fólki með alla hluti. Ég er auðvitað undir sömu sök seld, enda væri lítið gaman að skrifa svona pistla ef ég mætti ekki viðra skoðanir mínar á öllum sköpuðum hlutum.
Núna eru það barnaafmæli. Ekki þó þetta eina sanna, sem er að bresta á í desember, heldur barnaafmæli almennt. Þau virðast núna vera skipulögð af skólum og foreldrafélögum, en ekki afmælisbarninu og foreldrum þess.
Um daginn sagði vinkona mín farir sínar ekki sléttar. Litli guttinn hennar ætlaði að halda upp á afmælið sitt og setti saman gestalista. Á þeim lista voru bestu vinirnir úr fótboltanum, líka bestu vinirnir úr handboltanum og svo fjórir bestu vinirnir úr skólabekknum.
Móðirin sá ekkert athugavert við gestalistann og afmælið fór hið besta fram. En Adam var ekki lengi í Paradís. Móðirin fékk tölvupóst frá kennara drengsins, þar sem gerð var athugasemd vegna þess að hann hafði ekki boðið öllum drengjunum í bekknum, eins og reglur skólans og samþykktir foreldrafélagsins kveða á um. Hann hafði sem sagt skilið útundan.
Þetta sjónamið kennarans hefði átt rétt á sér, ef afmælisbarnið hefði boðið öllum bekkjafélögum nema einum. En því var aldeilis ekki að heilsa. Hann bauð fjórum af fimmtán strákum og hafði því gerst svo grófur að skilja ellefu útundan.
Móðirin benti réttilega á, að ef drengurinn hefði boðið öllum strákunum í bekknum, þá hefði hann ekki getað boðið bestu vinum sínum úr boltanum. Fjölskyldan býr vissulega í ágætu húsnæði, en það eru nú samt takmörk fyrir hversu marga fjöruga gutta er hægt að hýsa í einu. Og hvar er réttlætið í því að hann þurfi að bjóða öllum strákunum í bekknum, en sleppa þá hinum strákunum, sem eru miklu meiri félagar hans? Er ekki eineltisumræðan komin á villigötur þegar reglurnar eru orðnar svona ósveigjanlegar?
Að allt öðru: Í Morgunblaðinu á mánudag var mynd af ýmsum þjóðarleiðtogum heims. Þeir sátu fund leiðtoga aðildarríkja Efnahagssamvinnuráðs Asíu- og Kyrrahafsríkja, APEC, en fundurinn var haldinn í Víetnam. Á myndinni voru höfðingjarnir í hefðbundnum víetnömskum klæðnaði, sem kallast ao dai. Í hópi leiðtoganna mátti þekkja George W. Bush Bandaríkjaforseta og Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Báðir voru þeir í heiðbláum, síðum silkikufli með gylltu munstri.
Þessi mynd vakti mig til umhugsunar. Hvað ef fundurinn hefði verið haldinn í Bandaríkjunum? Hefði þá þótt tilhlýðilegt að fara fram á það við leiðtogana, að þeir klæddust allir saman svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu, bæru rauð hálsbindi og væru í gljápússuðum, svörtum skóm? Ætli forsætisráðherra Víetnam hefði ekki þótt undarlegt að skilja sinn sparilega ao dai eftir uppi á hótelherbergi, til að skrýðast jakkafötum frá gestgjafanum, Bush forseta? Og vera svo leiddur út í garðinn við Hvíta húsið svo hægt væri að taka mynd af honum í þessum hefðbundna klæðnaði heimamanna?
Vonandi fá íslenskir ráðamenn ekki þá hugmynd að storma með erlenda þjóðhöfðingja til Sævars Karls og klæða þá alla upp í jakkaföt. Mér finnst miklu skemmtilegra að sjá afríska höfðingja, sem hingað slæðast af og til, í sínum bubu eða dashiki. Eða gesti frá Mið-Austurlöndum í kaftan. Og hvað ef hingað kæmi nú einhver háttvirtur Japaninn og vildi endilega klæðast hakama eða kimono, en ekki þeim vestrænu fötum, sem þó hafa náð svo almennri útbreiðslu þar í landi?
Eða ef hingað villtist bútanskur þegn, en þeim ku vera uppálagt að láta aldrei sjá sig utan dyra nema í hnésíðu kuflunum sínum, gho. Þá væri nú aumt að mælast til þess að hann færi frekar í teinótt jakkaföt og hætt við að mikil vandlætingaróp hæfust um að við sýndum menningu hans og sögu mikla lítilsvirðingu með slíkri uppástungu.
Og auðvitað væri argasti dónaskapur að ætlast til að hinir tignu gestir okkar vörpuðu eigin klæðum og klæddust á þann hátt sem okkur líkar best. Ég er líka viss um að enginn hefur neytt Bush og Pútín í kuflana sína.
En ekki eru allir gestir jafn tignir, að mati gestgjafanna, né klæði þeirra fögur. Þótt við myndum aldrei ætlast til að sumir gesta okkar breyttu klæðaburðinum, þá þykir okkur þó alveg sjálfsagt að aðrir geri það. Við, og þá á ég við okkur hér á Vesturlöndum, viljum til dæmis banna múslimakonum að ganga í niqab, sem hylur höfuð og andlit, fyrir utan augu. Og það þarf nú ekki einu sinni að ræða það hversu illa okkur er við búrkuna, sem hylur konur alveg. Klæðnaður þessara kvenna er til marks um hversu kúgaðar þær eru, segjum við. Og teljum okkur geta sett okkur á háan hest, enda njótum við svo mikils frelsis að unglingsstúlkur geta verið hálf naktar á almannafæri án þess að við sjáum nokkuð athugavert við stöðu okkar sem siðferðispostular.
Okkur finnst þægilegast, þegar öll dýrin í skóginum eru vinir. Þess vegna viljum við setja reglur sem skylda krakka til að bjóða öllum börnunum í bekknum í afmælið sitt, þótt þau vilji bara bjóða örfáum. Við viljum líka gjarnan setja reglur um hvernig eigi að klæða sig, svo allir séu eins og enginn stingi í stúf. Í báðum tilvikum er afskaplega vandlifað og hætt við að reglur og vilji stangist á í hið óendanlega.
Friday, November 24, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment