Wednesday, November 01, 2006

Sumir foreldrar eru "alvöru"

Kollegi úr blaðamannastétt skrifaði eftirfarandi á bloggið sitt á mánudaginn:
,,Í viðtali á Morgunvaktin í morgun (30. október) talaði ungur kennari um börn sem ættu "samkynhneigða foreldra" eins og komist að orði. Rétt er að staldra við þetta orðalag, það er hvernig tveir einstaklingar af sama kyni geta eignast afkvæmi og orðið foreldrar. Hér eru endaskipti höfð á hlutunum og gangvirki sköpunarverksins snúið á haus. Ég hef alltaf talið að líf geti aðeins kviknað að þegar tveir einstaklingar, karlkyns og kvenkyns, leggi í púkk. Þannig hefur fyrirkomulagið verið, allt frá því Adam og Eva spókuðu sig um í Aldingarðinum forðum.
Sjálfsagt er að bera fulla virðingu fyrir tilfinningum þeirra sem hafa hvatir til einstaklinga af sama kyni. En um slík sambönd gildir hið sama og þegar kenndir kvikna meðal fólks á elliheimilum; ástin getur ekki borðið ávöxt. Allt annað er útúrsnúningur og rugl.
Auðvitað geta tveir einstaklingar af sama kyni verið ágætir foreldrar. Að óreyndu hefði ég hins vegar talið, með hagsmuni barna í huga, að best væri að eiga venjulegan pabba og venjulega mömmu. Eða ekki myndi ég vilja annað!"

Mér var ekkert sérstaklega skemmt, enda er ég samkynhneigt foreldri. Konan mín eignaðist tvíbura fyrir rúmum 5 árum og ég stjúpættleiddi þær nokkrum mánuðum síðar, eins og það heitir, enda vorum við í staðfestri samvist. Þær eiga það með tvær mömmur, ,,samkynhneigða foreldra", svo einfalt er það.

Og stelpunum mínum reiðir hreint bærilega af, takk :)

No comments: