Ég var í London um daginn. Frábærar bókabúðir þar á hverju strái. Í einni þeirra keypti ég nokkrar bækur, þar á meðal Alkemistann eftir Paulo Coelho. Ég vissi að þessi bók hafði selst í bílförmum og mig rámaði í að gagnrýnendur héldu ekki vatni af hrifningu.
Fuss og svei! Ég gafst upp á blaðsíðu 19, þegar gamli maðurinn var búinn að lauma út úr sér hverri andskotans spákökuspekinni á fætur annarri og fjárhirðirinn ungi gleypti við hverju orði. Er þetta þessi ,,mannbætandi lesning" sem allir eru svo heillaðir af? Einhver niðursoðin speki um að allir eigi að vera trúir draumum sínum og þrám, heilir og sannir, almennilegar manneskjur? Mér fannst ég stödd á einhverri nýaldarsjálfshjálparsamkomu.
Ég hefði átt að hætta við að kaupa bókina þegar ég sá að hún hafði selst í 30 milljónum eintaka. Það er enginn gæðastimpill á nokkurn skapaðan hlut, nema þá helst störf markaðsfræðinganna sem kynntu þetta gutl sem djúpa speki.
Ég hef allnokkrum sinnum fallið í þá gryfju að kaupa bækur, sem lofaðar hafa verið í hástert og keyptar af vitlausu fólki um allan heim. Ég þarf varla að lýsa gífurlegum vonbrigðum mínum með Brýrnar í Madison-sýslu fyrir þeim sem lesið hafa þá hörmung.
Alkemistinn eyðilagði gærkvöldið og ég er enn pirruð.
Wednesday, November 08, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Skilaðu bókinni strax! Hún gæti eitrað út frá sér á heimilinu. Og kannski er enn hægt að finna einhvern sjálfsræktandi nýaldarbjána sem á eftir að lesa hana.
Innilega sammála. Hef aldrei lesið aðra eins flatneskju. Alltaf að vara sig á bókum sem eru "rosalega vinsælar meðal almennings". Meðalgreindarvísitalan er ekki mjög há! Hljómar þetta nokkuð eins og ég sé merkileg með mig? :)
Bryndís systir
sammála. Fékk þetta rit lánað hjá innhverfum íhugunarmanni með dulspekikomplexa og hefði átt að gruna að ég ætti ekki erindi inná þessar síður sem varð og raunin. Gafst fljótlega upp en mér var seinna sagt að hún batnaði eftir 20. síðuna.
Uss, ég þekki nú handbragðið þitt "anonymous" !
Nei, kæri bróðir, ég mun EKKI halda áfram að lesa þetta kjaftæði. 19 blaðsíður voru meira en nóg
Post a Comment