Monday, December 04, 2006

Skreytingasamkeppni

Starfsmenn Mogga keppast við að skreyta básana sína, enda á að verðlauna þá sem standa sig best. Jólalegasti, frumlegasti og fyndnasti básinn fá verðlaun. Ég væri til í að fá verðlaun fyrir þann jólalegasta, því þá fæ ég úttekt í Krónunni. Eða þann fyndnasta, því þá fæ ég kaffi og ostakörfu. Ég get hins vegar ekki hugsað mér að fá verðlaun fyrir frumlegasta básinn: Heitsteinanudd! Hvernig dettur fólki svona vitleysa í hug? Eins og flest venjulegt fólk sé til í að leggjast nakið á bekk og láta einhvern raða heitum steinum á sig? Tíðkaðist þetta ekki á tímum rannsóknarréttarins?
Reyndar fékk ég einhvern tímann gjafakort í heitsteinanudd, en er löngu búin að gleyma hvernig það atvikaðist. Mér datt ekki í hug að fara frivilligt í slíkar pyndingar. Kata fór og lét eins og þetta hefði verið alveg ægilega notalegt. En hún er nú eins og hún er. Fer í leikfimi og svoleiðis.
Annað er afskaplega undarlegt við skreytingasamkeppnina miklu á Mogganum. Annar aðstoðarritstjórinn er formaður dómnefndar. Sá er frægastur fyrir að vilja helst aldrei taka til í básnum sínum. Blaðabunkarnir á borði hans ná upp í loft og honum finnst það bara fínt. Þessi maður á að dæma bása annarra. Ég er að hugsa um að skreyta minn bás í svörtu og hvítu, því þessi aðstoðarritstjóri er KR-ingur. Nei annars, þá fengi ég kannski verðlaunin fyrir frumlegasta básinn...

2 comments:

Anonymous said...

Ég þigg heitsteinanuddið - en mér er illa við hugmyndina um KR skrautið. Frumlegt samt !

-kata

Ragnhildur said...

Eftir umræðuna á heimilinu í gær efast ég um að ég komist upp með eitthvað svart/hvítt ;)