Saturday, December 02, 2006

Staður í helvíti (Viðhorf í Mbl. 1. des. 2006)

,,Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri."
Þetta er heiti bókar, sem ég rakst á fyrir skömmu, en ummælin munu höfð eftir Madeleine Albright, fyrstu konunni sem varð utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Bókin er eftir tvær sænskar konur, hinn þekkta skáldsagnahöfund og blaðamann Lizu Marklund og Lottu Snickare, ráðgjafa í stjórnun.
Í bókinni rekja Liza og Lotta hvernig komið er öðruvísi fram við konur en karla allt frá frumbernsku, hvernig kynferðið vinnur gegn konum frá upphafi og þær nefna fjölmörg dæmi úr eigin lífi og annarra. Allar konur ættu að geta sett sig í spor þeirra, enda er þetta enginn nýr sannleikur, þótt bráðnauðsynlegt sé að hafa hann ávallt í huga.
Þær taka dæmi af ýmsum rannsóknum, til dæmis hvernig fólk kemur fram við kornabörn eftir ætluðu kyni þeirra. Börnin voru ýmist klædd í bleika eða ljósbláa samfestinga, óháð kyni, og svo var fylgst með viðbrögðum fólks. Og það féll allt í sömu gryfjuna, mælti blíðróma gæluorð við bleiku börnin, reyndi að róa þau og fá þau til að liggja kyrr, helst sofna. Bleiku börnin fengu mjúka dúkku til að halda á í fanginu. Bláu börnin voru hins vegar hvött til að hjala og sprikla, fólk talaði við þau af ákefð og hárri röddu, tók þau upp og hampaði þeim. Og rétti þeim hringlu eða hrossabrest til að slá í og hrista.
Mér sýnist sem þessi hegðun sé ekki bundin við viðbrögð fólks við smábörnum. Fullorðnar konur eiga helst að vera kyrrar, best að þær fljóti bara sofandi gegnum lífið, á meðan strákarnir hjala, sprikla og hafa hátt.
Í formála bókarinnar segja þær Liza og Lotta: "Það er farið með konur sem annars flokks verur í Svíþjóð í dag.
Við höfum verri möguleika en karlar á nær öllum sviðum.
Sá sem heldur öðru fram lýgur.
Þrátt fyrir gott gengi í kvennabaráttunni lendum við alls staðar í því að þurfa að hlusta á bull um jafnréttið í þjóðfélagi okkar: Að konur hafi sömu möguleika og karlar og það sé bara undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst. Ungar konur og eldri karlar fá sér í lagi mikið rými í fjölmiðlum þegar þau láta í ljós þessa vanþekkingu sína.
Þetta snýst nefnilega um vanþekkingu. Fólk sem ekki er búið að ná því að konur eru lægra settar í þjóðfélaginu en karlar hefur ekki lesið sér almennilega til. Það talar án þess að hafa fast land undir fótum og rannsóknir sýna annað. Það þarf bara að kynna sér þær."
Þótt höfundarnir tveir séu sænskir og fjalli um sænskt þjóðfélag, gæti bókin allt eins verið rituð um íslenskt þjóðfélag.
Lakari staða kvenna en karla hefur lengi verið mér hugleikin, en tvennt vakti mig sérstaklega til umhugsunar um hana nýlega.
Annars vegar var það ráðning í stöðu rektors Háskólans í Reykjavík. Áður en arftaki Guðfinnu S. Bjarnadóttur var kynntur voru miklar vangaveltur um hver hreppti hnossið. Ég heyrði eldri mann segja eitthvað á þá leið, að það "þyrfti ekki endilega" að ráða konu, því nú væri kona rektor við Háskóla Íslands. Í orðum hans lá að þar með hefðu konur fengið kvótann sinn. Þegar ég benti á að enn væri staðan nú ekki sú að konur hefðu með einhverjum hætti sölsað undir sig allar stöður sem fengur væri í var hann fljótur að draga þetta til baka. Því auðvitað tók hann rökum, honum var bara eðlislægt að líta öðruvísi á málin.
Svo var tilkynnt að Svafa Grönfeldt hefði fengið stöðuna. "Nú, önnur kona?" voru fyrstu viðbrögð margra. Á einni bloggsíðunni sá ég mann velta því fyrir sér, hvort þarna væri að myndast hefð.
Hefð? Að kona taki við starfi af konu? Öfugt við gömlu hefðina, þar sem karl tók ávallt við af karli? Eru menn kannski farnir að óttast að þetta valdi einhverjum usla? Guð láti gott á vita.
Mig grunar reyndar að Svafa hafi ekki fengið starfið af því að nú séu uppi einhverjir nýir straumar í ráðningum. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram að þessi lektor við HÍ til margra ára og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Actavis sé ekki vel að starfinu kominn. Megi henni farnast sem allra best.
"Óheppilega inngripið" sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á að hafa gerst sekur um fyrir prófkjör flokksins á dögunum vakti mig líka til umhugsunar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerðist svo gróf, að mati sumra karla og áreiðanlega einhverra kvenna, að minna sérstaklega á að konur þyrftu að fá brautargengi í prófkjörum. Hún mun vera þeirrar skoðunar að flokkurinn þurfi að geta boðið fram sterka liðsheild, sem endurspegli ákveðna breidd, bæði út frá landshlutum en ekki síður út frá kynjum.
Ja, svei! Getur það mögulega verið hlutverk varaformanns stjórnmálaflokks að velta fyrir sér hvernig sá flokkur setur saman framboðslista? Sumir myndu nú ætla það. Ég fæ alla vega ekki skilið hvernig þetta getur verið óheppilegt inngrip varaformannsins og konunnar Þorgerðar Katrínar, sem hefur áreiðanlega tekið eftir því hversu skarðan hlut konur hafa borið frá borði í prófkjörum flokks hennar. Það skiptir engu máli, þótt reynt sé að fegra niðurstöður með því að benda á að konur hafi fengið 5 af 12 sætum, eins og gert var í Reykjavík, þegar 3 af þessum 5 lendu í þremur neðstu sætunum. Ber Þorgerði Katrínu ekki skylda til að benda flokksmönnum á að velja svo á lista að þeir endurspegli þjóðfélagið, þjóðfélag karla og kvenna?
Þar að auki veit hún áreiðanlega, að það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri.

1 comment:

Anonymous said...

Góð!