Skrítið þetta jólaveður, alltaf rok og rigning. Global warming, svei mér þá.
Við í Logalandinu látum ekki deigan síga, í gær var 10 manna matarboð, en til allrar hamingju sáu gestirnir að mestu um veitingarnar. Þetta var samt þrekraun, enn einn ganginn. Ekki kompaníið, það var alveg stórfínt, enda stóð gleðin fram á nótt. Ég kveið morgninum verulega þegar ég fór að sofa klukkan 4 og lét tómu rauðvíns-, hvítvíns-, bjór- og koníaksflöskurnar eiga sig uppi í stofu. Einhvern veginn tókst mér nú samt að vera mætt hér á Mogga klukkan 9.
Í gærkvöldi var mér bent á baksíðupistil sem Gerður Kristný skrifaði í Fréttablaðið. "Þegar Ragnhildur skilaði jólunum". Ég var auðvitað ákaflega upp með mér yfir fögrum orðum hennar um Viðhorfið mitt, þar sem ég lýsti megnustu andúð á þessu eilífa stress- og eyðslutali í kringum jólin.
Núna gæti ég kannski skrifað Viðhorf um pistilinn hennar Gerðar. Við gætum stundað svona sjálfbæra blaðamennsku á víxl ;)
Thursday, December 28, 2006
Wednesday, December 27, 2006
Gleði, gleði og gleðilega rest !
Aldeilis hefur nú lífið leikið við mig þessa síðustu daga! Ég hef hins vegar komist að raun um, enn einu sinni, að jólin eru bara fyrir fílhraust fólk. Allur maturinn á aðfangadag, Drottinn minn! Til allrar hamingju var uppstytta á jóladag, fyrir utan allt of ríkulegan brunch hjá vinum, en svo tók konfektið við, enda algjörlega ómögulegt að lesa jólabækur konfektlaus.
26. desember mætti mitt fólk í hlaðborð í hádeginu og um kvöldið var hangikjöt hjá tengdó. Í kvöld ætla nokkrir vinir að líta við, í mat að sjálfsögðu.
Mikið var ég fegin að fá brauðsneið með osti og fljótandi skyr.is í hádeginu í dag.
Lifi mötuneyti Moggans!
26. desember mætti mitt fólk í hlaðborð í hádeginu og um kvöldið var hangikjöt hjá tengdó. Í kvöld ætla nokkrir vinir að líta við, í mat að sjálfsögðu.
Mikið var ég fegin að fá brauðsneið með osti og fljótandi skyr.is í hádeginu í dag.
Lifi mötuneyti Moggans!
Friday, December 22, 2006
Pólitísk rétthugsun :)
Ármann Jakobsson hefur samið nýjan texta við lagið um jólasveinana sem ganga um gólf. Bráðfyndin pólitísk rétthugsun hjá Ármanni.
http://skrubaf.blogspot.com/
http://skrubaf.blogspot.com/
Rjúpur
Blessuð rjúpan hefur ekki beinlínis flogið í fangið á veiðimönnum þetta haustið. Af fréttum að dæma þurfa margir að sleppa þessum hátíðarmat og borða eitthvað óæðra.
Pabbi bjargaði okkur Kötu um nokkrar rjúpur, sem ættu að duga fyrir okkur og tengdó þessi jólin. Kata er greinilega ekkert of viss, því hún lýsti því yfir að ef ég næði ekki að losa mig við kvefið sem þjakar mig núna, þá fengi ég enga rjúpu! Henni finnst algjör óþarfi að splæsa slíku góðgæti á manneskju með bilað bragðskyn.
Ég hef fullan skilning á þessu sjónarmiði hennar.
Pabbi bjargaði okkur Kötu um nokkrar rjúpur, sem ættu að duga fyrir okkur og tengdó þessi jólin. Kata er greinilega ekkert of viss, því hún lýsti því yfir að ef ég næði ekki að losa mig við kvefið sem þjakar mig núna, þá fengi ég enga rjúpu! Henni finnst algjör óþarfi að splæsa slíku góðgæti á manneskju með bilað bragðskyn.
Ég hef fullan skilning á þessu sjónarmiði hennar.
Thursday, December 21, 2006
Glöggir gestgjafar
Mikið er ég ánægð með fólk sem býður í jólaglögg í nýkeyptu og galtómu einbýlishúsi. Svona á fólk að vera! Hverjum er ekki sama þótt innbúið vanti, þegar húsið er fullt af góðu fólki og glöggi? Til hamingju með húsið, Tobba og Halli ;)
Skoðanaleysi eða sæla?
Svei mér þá, mér tekst ekki að koma saman Viðhorfi fyrir morgundaginn. Undanfarið hef ég bara skrifað aðra hvora viku.
Hverju er um að kenna? Skoðanaleysi mínu? Eða er desember bara svo dásamlegur að ég kem ekki orðum að því og get enn síður fengið mig til að kvarta og kveina, jafnvel þótt meðferðarstofnanir og Framsóknarflokkurinn gefi tilefni til?
Svei mér þá!
Hverju er um að kenna? Skoðanaleysi mínu? Eða er desember bara svo dásamlegur að ég kem ekki orðum að því og get enn síður fengið mig til að kvarta og kveina, jafnvel þótt meðferðarstofnanir og Framsóknarflokkurinn gefi tilefni til?
Svei mér þá!
Wednesday, December 20, 2006
Himnasæluvist
Ekki veit ég hvað yrði um stelpurnar mínar ef leikskólans nyti ekki við. Það er nú meiri himnasælustaðurinn.
Á mánudag fór allur skarinn á Rauðu deildinni í heitt kakó og vöfflur heima hjá Lindu leikskólakennara. Hún var auðvitað búin að skreyta og setja upp jólatré fyrir krílin.
Á þriðjudag fór hópurinn upp í Hallgrímskirkjuturn og alla leið í Ráðhúsið. Held nú samt að strætóferðin hafi verið skemmtilegust :)
Í dag fáum við foreldrarnir að slást í hópinn í Húsdýragarðinum, hittum jólasveininn og fáum veitingar.
Og á morgun er náttfatapartý á Rauðu deild.
Heldur einhver að við Kata séum með samviskubit yfir að "geyma" þær systur í þessari sælu alla daga? Onei!
Á mánudag fór allur skarinn á Rauðu deildinni í heitt kakó og vöfflur heima hjá Lindu leikskólakennara. Hún var auðvitað búin að skreyta og setja upp jólatré fyrir krílin.
Á þriðjudag fór hópurinn upp í Hallgrímskirkjuturn og alla leið í Ráðhúsið. Held nú samt að strætóferðin hafi verið skemmtilegust :)
Í dag fáum við foreldrarnir að slást í hópinn í Húsdýragarðinum, hittum jólasveininn og fáum veitingar.
Og á morgun er náttfatapartý á Rauðu deild.
Heldur einhver að við Kata séum með samviskubit yfir að "geyma" þær systur í þessari sælu alla daga? Onei!
Monday, December 18, 2006
Jólabörn?
Þekkið þið einhverja krakka, á aldrinum 10-14 ára, sem eiga afmæli á aðfangadag? Látið mig þá vita (og Magga Ósk, þú fellur EKKI undir þetta, að verða kelling 28. des.)
Allt í mesta sóma hérna megin eftir notalega helgi. Piparkökubakstur og rólegheit í Logalandinu og jólaball hjá Mogga.
Ég hlakka mikið til jólanna :)
Allt í mesta sóma hérna megin eftir notalega helgi. Piparkökubakstur og rólegheit í Logalandinu og jólaball hjá Mogga.
Ég hlakka mikið til jólanna :)
Friday, December 15, 2006
Skýringar og skilningur (Viðhorf í Mbl. 15/12)
Í kjölfar banaslyss á Vesturlandsvegi um síðustu helgi var frá því skýrt að lögreglunni hefði blöskrað framkoma og tillitsleysi vegfarenda á slysstaðnum. Hið sama mun hafa verið upp á teningnum í fleiri slysum. "Eru þess dæmi að aðvífandi ökumenn hafi skammast í lögreglu og sett ofan í við hana vegna tafa á umferð á slysstað," sagði meðal annars í frétt Morgunblaðsins sl. mánudag. Þar kom fram að sumir ökumenn gangi svo langt að aka beinlínis í gegnum vettvang slysa og hafi engan skilning á því að lögregla þurfi að hafa frið til að ljúka vettvangsrannsókn.
Framkoma sem þessi er auðvitað forkastanleg og þeim sem hana sýna til háborinnar skammar. Ég ætla mér alls ekki að reyna að afsaka þessa hegðun, en mig grunar að hún eigi sér ef til vill einhverjar skýringar, aðrar en þær að viðkomandi ökumenn séu öðrum verr innrættir. Þar staldra ég sérstaklega við skilninginn, sem sagt er að ökumenn skorti á nauðsyn þess að lögregla ljúki vettvangsrannsókn.
Skilning er erfitt að öðlast, ef engar eru upplýsingarnar. Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hefur nefnt, að tímabært sé að setja upp upplýsingaskilti við helstu stofnæðar til borgarinnar. Með slíkum skiltum mætti hæglega koma þeim skilaboðum til vegfarenda, að vegurinn sé lokaður vegna slyss. Og ef menn bera gæfu til að setja skiltin upp á réttum stöðum, þá eykur það möguleika vegfarenda á að velja aðra leið. Að minnsta kosti mun það auka skilning á aðstæðum og með auknum skilningi kemur virðing og umburðarlyndi.
Íslenskir vegfarendur hafa alist upp við afskaplega slælegar merkingar á vegum. Þau eru óteljandi skiptin, sem ég hef nánast ekið ofan í skurð, eða út af vegi, af því að engar merkingar um framkvæmdir var að finna fyrr en á skurðbarminum. Þar virðist einu gilda hvort framkvæmdirnar eru innan borgarmarkanna eða úti á þjóðvegunum.
Ég man líka eftir allnokkrum skiptum, þar sem ég hef setið föst í umferð, bæði innan borgar og utan. Oft hef ég haldið að einhvers staðar hafi orðið stórslys. Raunin hefur hins vegar oftast nær verið sú, að einhverjar vegaframkvæmdir stóðu yfir og þeir sem þar stóðu að verki höfðu ekki hugsun á að láta fólk vita tímanlega, t.d. svo það gæti valið sér aðra leið. Ég verð að viðurkenna að ég hafði lítinn skilning og enga þolinmæði með því verklagi.
Hér er auðvitað ólíku saman að jafna, töfum vegna gatnaframkvæmda og lokun vegar vegna alvarlegs slyss. En þegar ökumenn hafa alist upp við gegndarlaust tillitsleysi vegna vegaframkvæmda þá hættir þeim áreiðanlega til að álykta sem svo, að biðröðin mikla, sem þeir sitja fastir í, eigi sér einhverjar slíkar skýringar. Engar merkingar segja þeim til um hvað er á seyði. Þeir verða pirraðir og láta það bitna á þeim sem síst skyldi.
Og þrátt fyrir öll fögru orðin um öryggishlutverk ríkisútvarpsins geta þeir ekki treyst á að finna upplýsingar á einni rás fremur en annarri. Umferðarstofa á að vísu í samstarfi við Rás 2 virka daga og segir fréttir af umferð og færð víða um land upp úr 7:30 á morgnana, aftur kl. 14:15 og loks eftir fréttir kl. 17. Á laugardögum heyrist í umferðarútvarpinu á Rás 1. Að öðru leyti er ekki hægt að ganga að neinum fréttum vísum um færð, lokanir og slys.
Upplýsingaskilti eru ágæt leið til að koma skilaboðum til vegfarenda. Nú þegar er slík skilti að finna í nágrenni höfuðborgarinnar, t.d. í Mosfellsbæ, við Rauðavatn og við rætur Hellisheiðar. Þau sýna m.a. hitastig, færð á fjallvegum og vara við hættulegum vindhviðum. Þessum skiltum er hægt að breyta fyrirvaralaust frá höfuðstöðvum Vegagerðarinnar, en þau eru með þeim annmarka að texti getur í mesta lagi verið 10 stafir. Þau nýtast því takmarkað til að vara við lokun vegna alvarlegra slysa, þótt dæmi séu vissulega um slíkt.
Í Hvalfjarðargöngunum er vegfarendum bent á að hafa útvarp sitt stillt á Rás 1, Rás 2 eða Bylgjuna. Ef eitthvað gerist í göngunum geta vaktmenn í gjaldskýli rofið þessar útsendingar og komið skilaboðum og leiðbeiningum til ökumanna. Útsendingarnar rofna hins vegar ekki hjá hlustendum útvarpsstöðvanna, sem staddir eru annars staðar.
Er tæknilega mögulegt að koma þessu kerfi á annars staðar? Alls staðar? Væri hægt að hafa skilti með reglulegu millibili í vegkantinum, sem segir fólki á hvaða rás það á að stilla, ef það þarf upplýsingar um óhapp eða framkvæmdir á þeim vegi sem það er statt? Og lögregla gæti þá rofið útsendingar á afmörkuðum svæðum til að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri.
Skilti, sem benda vegfarendum á útvarpsrásir, sjást mjög víða erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum. Þar hafa menn reyndar bolmagn til að reka sérstakar umferðarrásir allan sólarhringinn og kannski væri í allt of mikið ráðist hér á landi.
Annar möguleiki er sá, að nýta sér almenna farsímaeign landsmanna. Allir geta núna sótt sér fréttir í gemsana og þá ætti að vera hægur vandi að sækja sér líka umferðarupplýsingar. Slíkt kerfi er t.d. við lýði í Bretlandi.
Í kjölfar banaslyssins á Vesturlandsvegi hafa vegfarendur haft samband við lögregluna og beðist afsökunar á framferði sínu. Þeim er ekki alls varnað, þótt augnabliks óþolinmæði og tillitsleysi hafi leitt þá í ógöngur. Slíkar uppákomur verða áreiðanlega færri, og jafnvel úr sögunni, ef vegfarendur fá skýringar og öðlast þar með skilning.
Framkoma sem þessi er auðvitað forkastanleg og þeim sem hana sýna til háborinnar skammar. Ég ætla mér alls ekki að reyna að afsaka þessa hegðun, en mig grunar að hún eigi sér ef til vill einhverjar skýringar, aðrar en þær að viðkomandi ökumenn séu öðrum verr innrættir. Þar staldra ég sérstaklega við skilninginn, sem sagt er að ökumenn skorti á nauðsyn þess að lögregla ljúki vettvangsrannsókn.
Skilning er erfitt að öðlast, ef engar eru upplýsingarnar. Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hefur nefnt, að tímabært sé að setja upp upplýsingaskilti við helstu stofnæðar til borgarinnar. Með slíkum skiltum mætti hæglega koma þeim skilaboðum til vegfarenda, að vegurinn sé lokaður vegna slyss. Og ef menn bera gæfu til að setja skiltin upp á réttum stöðum, þá eykur það möguleika vegfarenda á að velja aðra leið. Að minnsta kosti mun það auka skilning á aðstæðum og með auknum skilningi kemur virðing og umburðarlyndi.
Íslenskir vegfarendur hafa alist upp við afskaplega slælegar merkingar á vegum. Þau eru óteljandi skiptin, sem ég hef nánast ekið ofan í skurð, eða út af vegi, af því að engar merkingar um framkvæmdir var að finna fyrr en á skurðbarminum. Þar virðist einu gilda hvort framkvæmdirnar eru innan borgarmarkanna eða úti á þjóðvegunum.
Ég man líka eftir allnokkrum skiptum, þar sem ég hef setið föst í umferð, bæði innan borgar og utan. Oft hef ég haldið að einhvers staðar hafi orðið stórslys. Raunin hefur hins vegar oftast nær verið sú, að einhverjar vegaframkvæmdir stóðu yfir og þeir sem þar stóðu að verki höfðu ekki hugsun á að láta fólk vita tímanlega, t.d. svo það gæti valið sér aðra leið. Ég verð að viðurkenna að ég hafði lítinn skilning og enga þolinmæði með því verklagi.
Hér er auðvitað ólíku saman að jafna, töfum vegna gatnaframkvæmda og lokun vegar vegna alvarlegs slyss. En þegar ökumenn hafa alist upp við gegndarlaust tillitsleysi vegna vegaframkvæmda þá hættir þeim áreiðanlega til að álykta sem svo, að biðröðin mikla, sem þeir sitja fastir í, eigi sér einhverjar slíkar skýringar. Engar merkingar segja þeim til um hvað er á seyði. Þeir verða pirraðir og láta það bitna á þeim sem síst skyldi.
Og þrátt fyrir öll fögru orðin um öryggishlutverk ríkisútvarpsins geta þeir ekki treyst á að finna upplýsingar á einni rás fremur en annarri. Umferðarstofa á að vísu í samstarfi við Rás 2 virka daga og segir fréttir af umferð og færð víða um land upp úr 7:30 á morgnana, aftur kl. 14:15 og loks eftir fréttir kl. 17. Á laugardögum heyrist í umferðarútvarpinu á Rás 1. Að öðru leyti er ekki hægt að ganga að neinum fréttum vísum um færð, lokanir og slys.
Upplýsingaskilti eru ágæt leið til að koma skilaboðum til vegfarenda. Nú þegar er slík skilti að finna í nágrenni höfuðborgarinnar, t.d. í Mosfellsbæ, við Rauðavatn og við rætur Hellisheiðar. Þau sýna m.a. hitastig, færð á fjallvegum og vara við hættulegum vindhviðum. Þessum skiltum er hægt að breyta fyrirvaralaust frá höfuðstöðvum Vegagerðarinnar, en þau eru með þeim annmarka að texti getur í mesta lagi verið 10 stafir. Þau nýtast því takmarkað til að vara við lokun vegna alvarlegra slysa, þótt dæmi séu vissulega um slíkt.
Í Hvalfjarðargöngunum er vegfarendum bent á að hafa útvarp sitt stillt á Rás 1, Rás 2 eða Bylgjuna. Ef eitthvað gerist í göngunum geta vaktmenn í gjaldskýli rofið þessar útsendingar og komið skilaboðum og leiðbeiningum til ökumanna. Útsendingarnar rofna hins vegar ekki hjá hlustendum útvarpsstöðvanna, sem staddir eru annars staðar.
Er tæknilega mögulegt að koma þessu kerfi á annars staðar? Alls staðar? Væri hægt að hafa skilti með reglulegu millibili í vegkantinum, sem segir fólki á hvaða rás það á að stilla, ef það þarf upplýsingar um óhapp eða framkvæmdir á þeim vegi sem það er statt? Og lögregla gæti þá rofið útsendingar á afmörkuðum svæðum til að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri.
Skilti, sem benda vegfarendum á útvarpsrásir, sjást mjög víða erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum. Þar hafa menn reyndar bolmagn til að reka sérstakar umferðarrásir allan sólarhringinn og kannski væri í allt of mikið ráðist hér á landi.
Annar möguleiki er sá, að nýta sér almenna farsímaeign landsmanna. Allir geta núna sótt sér fréttir í gemsana og þá ætti að vera hægur vandi að sækja sér líka umferðarupplýsingar. Slíkt kerfi er t.d. við lýði í Bretlandi.
Í kjölfar banaslyssins á Vesturlandsvegi hafa vegfarendur haft samband við lögregluna og beðist afsökunar á framferði sínu. Þeim er ekki alls varnað, þótt augnabliks óþolinmæði og tillitsleysi hafi leitt þá í ógöngur. Slíkar uppákomur verða áreiðanlega færri, og jafnvel úr sögunni, ef vegfarendur fá skýringar og öðlast þar með skilning.
Thursday, December 14, 2006
Sátt og samlyndi
Margrét systir mín var spurð að því í kvöldfréttum í gær, hvort leyfi hennar frá framkvæmdum fyrir Frjálslynda flokkinn hefði verið niðurstaða sáttanefndar. Hún sagði að þetta hefði verið sátt milli sín og sáttanefndar.
Gott að þarna ríkir sátt og samlyndi. Ég var farin að óttast að þarna væri fátt um frjálslyndi. Og svoleiðis kompaný vil ég auðvitað ekki sjá Möggu í. Nú veit ég að hún er borin á útréttum sáttahöndum.
HA!
Gott að þarna ríkir sátt og samlyndi. Ég var farin að óttast að þarna væri fátt um frjálslyndi. Og svoleiðis kompaný vil ég auðvitað ekki sjá Möggu í. Nú veit ég að hún er borin á útréttum sáttahöndum.
HA!
Skandinavíusendingar
Pakkar til ættingjanna í Svíþjóð fóru úr landi í dag, tveimur dögum eftir deadline, en póstmenn segja Kötu að það sé allt í sóma. Ég er viss um að Kata hefur sýnt fyllstu pósthúskurteisi og látið eins og hún væri afskaplega þakklát fyrir reddinguna. Samt vita allir að þetta deadline er tómt kjaftæði. Póstmenn vita hins vegar ekki að við vitum...
Undarlegir tímar
Fróðleiksmolinn og lögspekingurinn Leifur er kominn með háskólapróf í bókhaldi.
Við lifum á undarlegum tímum.
Við lifum á undarlegum tímum.
Wednesday, December 13, 2006
Jesssss!!!
Frændum vorum, Færeyingum, er þá ekki alls varnað eftir allt saman!
http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1241290
http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1241290
Monday, December 11, 2006
Klukkan
Heldur er það nú vandræðalegt að þykjast nógu forfrömuð til að fást við bloggskrif, en lenda svo í vandræðum með að stilla klukkuna á blogginu. Fjölskylda og vinir hafa áhyggjur, halda að ég skrifi alltaf um miðjar nætur.
Julefrokost
Þessi helgi var afskaplega ljúf.
Á laugardaginn komu lögspekingarnir miklu í heimsókn (hvað hét annars "lögmannsstofan" sem við stofnuðum í einhverju verkefninu?) Við borðuðum paté og salami og reyktan ál og hrátt hangikjöt og stríðstertu í desert, drukkum jólabjór og staupuðum okkur á ákavíti. Öll nema Dúdda. Hún borðaði að vísu og drakk bjórinn, en þarf greinilega að taka sig á í sterku drykkjunum.
Hófið fór hið besta fram og stóð allt þar til tilvonandi prestfrú laumaðist burt í limósínu til að læra súludans.
Þetta er undarlegur hópur.
Á sunnudeginum endurtók sagan sig, með gestum, paté, salami, ál og hangikjöti, en þar sem þetta var hinn alræmdi matarklúbbur heldri og eldri (miðað við lögspekingakjúklingana) borgara bættist á metseðilinn reyktur lax og reykt síldarsalat. Bjór og ákavíti aftur...
Og aftur.
Síðari hópurinn er líka smáskrítinn.
Mikið gott að eiga góða vini og halda julefrokost. Næst verður þetta kannski ekki um sömu helgina, allur þessi matur og drykkur er töluverð þrekraun, jafnvel alvönu fólki.
Á laugardaginn komu lögspekingarnir miklu í heimsókn (hvað hét annars "lögmannsstofan" sem við stofnuðum í einhverju verkefninu?) Við borðuðum paté og salami og reyktan ál og hrátt hangikjöt og stríðstertu í desert, drukkum jólabjór og staupuðum okkur á ákavíti. Öll nema Dúdda. Hún borðaði að vísu og drakk bjórinn, en þarf greinilega að taka sig á í sterku drykkjunum.
Hófið fór hið besta fram og stóð allt þar til tilvonandi prestfrú laumaðist burt í limósínu til að læra súludans.
Þetta er undarlegur hópur.
Á sunnudeginum endurtók sagan sig, með gestum, paté, salami, ál og hangikjöti, en þar sem þetta var hinn alræmdi matarklúbbur heldri og eldri (miðað við lögspekingakjúklingana) borgara bættist á metseðilinn reyktur lax og reykt síldarsalat. Bjór og ákavíti aftur...
Og aftur.
Síðari hópurinn er líka smáskrítinn.
Mikið gott að eiga góða vini og halda julefrokost. Næst verður þetta kannski ekki um sömu helgina, allur þessi matur og drykkur er töluverð þrekraun, jafnvel alvönu fólki.
Friday, December 08, 2006
Glögg og smákökur
Í morgun komu Kata og stelpurnar með mér í vinnuna og hjálpuðu mér að ljúka við skreytingar. Stelpurnar voru búnar að gera tvær jólameyjar, klippa þær út. lita og skreyta.
Dómnefndin kom hingað áðan, einmitt þegar við samstarfskonurnar vorum búnar að hita glöggið og vorum að taka smákökurnar út úr ofninum.
Held að við höfum slegið í gegn.
Kannski var myndin af eiginkonu forstjórans, með gylltan geislabaug, "too much". Við ákváðum bara að ganga eins langt og hægt væri til að gulltryggja sigurinn.
Úrslit eru enn ekki ljós.
Dómnefndin kom hingað áðan, einmitt þegar við samstarfskonurnar vorum búnar að hita glöggið og vorum að taka smákökurnar út úr ofninum.
Held að við höfum slegið í gegn.
Kannski var myndin af eiginkonu forstjórans, með gylltan geislabaug, "too much". Við ákváðum bara að ganga eins langt og hægt væri til að gulltryggja sigurinn.
Úrslit eru enn ekki ljós.
Thursday, December 07, 2006
Hver er best?
Bylgjan kannaði hver væri best fallinn til að leiða Frjálslynda flokkinn. Niðurstöðurnar voru birtar á bylgjan.is í dag.
Ég get ekki sagt að sigur Margrétar systur minnar hafi komið mér á óvart. Ég er auðvitað ekki hlutlaus í málinu. En að hún rúllaði þessu svona gjörsamlega upp er alveg með ólíkindum. Hörmuleg útkoma Magnúsar Þórs og Jóns Magnússonar þarf ekkert að koma á óvart, en Guðjón hlýtur að vera svekktur.
Kíkið á http://www.bylgjan.is
Niðurstöðurnar eru neðst á síðunni.
Ég get ekki sagt að sigur Margrétar systur minnar hafi komið mér á óvart. Ég er auðvitað ekki hlutlaus í málinu. En að hún rúllaði þessu svona gjörsamlega upp er alveg með ólíkindum. Hörmuleg útkoma Magnúsar Þórs og Jóns Magnússonar þarf ekkert að koma á óvart, en Guðjón hlýtur að vera svekktur.
Kíkið á http://www.bylgjan.is
Niðurstöðurnar eru neðst á síðunni.
Andlaus
Nú er andleysið alveg að gera út af við mig.
Mér sýnist ekkert Viðhorf verða í Mogga á morgun
Mér sýnist ekkert Viðhorf verða í Mogga á morgun
Wednesday, December 06, 2006
Við höfnina
Ég breytti lúkkinu á blogginu mínu, en fékk einhvern veginn engu ráðið um útkomuna. Mér líður eins og vitaverði í þessu umhverfi.
Sem er ágætt stundum, en getur verið mjög einmanalegt.
Lærði þó að setja inn linka, vantar bara fleiri virðulega. Þarna er Magga systir virðulegust og þá er nú ýmislegt á hvolfi í heiminum.
Sem er ágætt stundum, en getur verið mjög einmanalegt.
Lærði þó að setja inn linka, vantar bara fleiri virðulega. Þarna er Magga systir virðulegust og þá er nú ýmislegt á hvolfi í heiminum.
Alltaf batnar það...
Í gærkvöldi sagði ég stelpunum mínum frá skreytingakeppninni miklu. Þær urðu óðar og uppvægar og nú stefnir í að þær tryggi mér sigur.
Hugmyndaflugið var ótrúlegt. Þær ætla að byggja yfir básinn minn, setja hurð, búa til platglugga og þegar gægst er inn um gluggana sjást myndir af fjölskyldunni, svo þarf hlið fyrir framan básinn og þegar hliðið er opnað heyrist tónlist og ljós kvikna. Og jólasveinn í fullri líkamsstærð dillar sér í takt við tónlistina.
Í fyrramálið ætla þær að mæta með mér í vinnuna og hrinda öllum hugmyndum sínum í framkvæmd.
Ég þori ekki að segja samstarfsfólkinu frá þessu.
Hugmyndaflugið var ótrúlegt. Þær ætla að byggja yfir básinn minn, setja hurð, búa til platglugga og þegar gægst er inn um gluggana sjást myndir af fjölskyldunni, svo þarf hlið fyrir framan básinn og þegar hliðið er opnað heyrist tónlist og ljós kvikna. Og jólasveinn í fullri líkamsstærð dillar sér í takt við tónlistina.
Í fyrramálið ætla þær að mæta með mér í vinnuna og hrinda öllum hugmyndum sínum í framkvæmd.
Ég þori ekki að segja samstarfsfólkinu frá þessu.
Tuesday, December 05, 2006
Sænskir nissar
Jæja, þá er ég byrjuð að skreyta básinn minn. Tíu litlir, upplýstir jólasveinar hanga núna uppi. Þeir vekja ekkert sérstaklega mikla hrifningu. ,,Ósköp er þetta sérvitringsleg jólaskreyting," sagði aðstoðarritstjóri (ekki þó sá sem leiðir dómnefndina).
Þetta er reyndar rétt hjá honum. Jólasveinarnir eru nefnilega engir alvöru jólasveinar, heldur sænskir jólanissar, einhvers konar ævintýradvergaafbrigði. Í brúnum buxum og bláum treyjum, en að vísu með rauðar skotthúfur.
Þetta hef ég upp úr því að versla í IKEA.
Þetta er reyndar rétt hjá honum. Jólasveinarnir eru nefnilega engir alvöru jólasveinar, heldur sænskir jólanissar, einhvers konar ævintýradvergaafbrigði. Í brúnum buxum og bláum treyjum, en að vísu með rauðar skotthúfur.
Þetta hef ég upp úr því að versla í IKEA.
Monday, December 04, 2006
Skreytingasamkeppni
Starfsmenn Mogga keppast við að skreyta básana sína, enda á að verðlauna þá sem standa sig best. Jólalegasti, frumlegasti og fyndnasti básinn fá verðlaun. Ég væri til í að fá verðlaun fyrir þann jólalegasta, því þá fæ ég úttekt í Krónunni. Eða þann fyndnasta, því þá fæ ég kaffi og ostakörfu. Ég get hins vegar ekki hugsað mér að fá verðlaun fyrir frumlegasta básinn: Heitsteinanudd! Hvernig dettur fólki svona vitleysa í hug? Eins og flest venjulegt fólk sé til í að leggjast nakið á bekk og láta einhvern raða heitum steinum á sig? Tíðkaðist þetta ekki á tímum rannsóknarréttarins?
Reyndar fékk ég einhvern tímann gjafakort í heitsteinanudd, en er löngu búin að gleyma hvernig það atvikaðist. Mér datt ekki í hug að fara frivilligt í slíkar pyndingar. Kata fór og lét eins og þetta hefði verið alveg ægilega notalegt. En hún er nú eins og hún er. Fer í leikfimi og svoleiðis.
Annað er afskaplega undarlegt við skreytingasamkeppnina miklu á Mogganum. Annar aðstoðarritstjórinn er formaður dómnefndar. Sá er frægastur fyrir að vilja helst aldrei taka til í básnum sínum. Blaðabunkarnir á borði hans ná upp í loft og honum finnst það bara fínt. Þessi maður á að dæma bása annarra. Ég er að hugsa um að skreyta minn bás í svörtu og hvítu, því þessi aðstoðarritstjóri er KR-ingur. Nei annars, þá fengi ég kannski verðlaunin fyrir frumlegasta básinn...
Reyndar fékk ég einhvern tímann gjafakort í heitsteinanudd, en er löngu búin að gleyma hvernig það atvikaðist. Mér datt ekki í hug að fara frivilligt í slíkar pyndingar. Kata fór og lét eins og þetta hefði verið alveg ægilega notalegt. En hún er nú eins og hún er. Fer í leikfimi og svoleiðis.
Annað er afskaplega undarlegt við skreytingasamkeppnina miklu á Mogganum. Annar aðstoðarritstjórinn er formaður dómnefndar. Sá er frægastur fyrir að vilja helst aldrei taka til í básnum sínum. Blaðabunkarnir á borði hans ná upp í loft og honum finnst það bara fínt. Þessi maður á að dæma bása annarra. Ég er að hugsa um að skreyta minn bás í svörtu og hvítu, því þessi aðstoðarritstjóri er KR-ingur. Nei annars, þá fengi ég kannski verðlaunin fyrir frumlegasta básinn...
Ertu í vinnunni?
Margrét systir mín var í Kastljósinu í gær. Og stóð sig auðvitað stórvel, að vanda.
Ég skammast mín fyrir að viðurkenna að komið er fram yfir hádegi á mánudegi og ég ekki búin að kanna hvort hún er í vinnunni.
Hvaða vinnu? kynni einhver að spyrja.
Mér liggur við að nota frasann ,,Þegar stórt er spurt..." sem annar bloggari notar gjarnan.
Ég skammast mín fyrir að viðurkenna að komið er fram yfir hádegi á mánudegi og ég ekki búin að kanna hvort hún er í vinnunni.
Hvaða vinnu? kynni einhver að spyrja.
Mér liggur við að nota frasann ,,Þegar stórt er spurt..." sem annar bloggari notar gjarnan.
Saturday, December 02, 2006
Staður í helvíti (Viðhorf í Mbl. 1. des. 2006)
,,Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri."
Þetta er heiti bókar, sem ég rakst á fyrir skömmu, en ummælin munu höfð eftir Madeleine Albright, fyrstu konunni sem varð utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Bókin er eftir tvær sænskar konur, hinn þekkta skáldsagnahöfund og blaðamann Lizu Marklund og Lottu Snickare, ráðgjafa í stjórnun.
Í bókinni rekja Liza og Lotta hvernig komið er öðruvísi fram við konur en karla allt frá frumbernsku, hvernig kynferðið vinnur gegn konum frá upphafi og þær nefna fjölmörg dæmi úr eigin lífi og annarra. Allar konur ættu að geta sett sig í spor þeirra, enda er þetta enginn nýr sannleikur, þótt bráðnauðsynlegt sé að hafa hann ávallt í huga.
Þær taka dæmi af ýmsum rannsóknum, til dæmis hvernig fólk kemur fram við kornabörn eftir ætluðu kyni þeirra. Börnin voru ýmist klædd í bleika eða ljósbláa samfestinga, óháð kyni, og svo var fylgst með viðbrögðum fólks. Og það féll allt í sömu gryfjuna, mælti blíðróma gæluorð við bleiku börnin, reyndi að róa þau og fá þau til að liggja kyrr, helst sofna. Bleiku börnin fengu mjúka dúkku til að halda á í fanginu. Bláu börnin voru hins vegar hvött til að hjala og sprikla, fólk talaði við þau af ákefð og hárri röddu, tók þau upp og hampaði þeim. Og rétti þeim hringlu eða hrossabrest til að slá í og hrista.
Mér sýnist sem þessi hegðun sé ekki bundin við viðbrögð fólks við smábörnum. Fullorðnar konur eiga helst að vera kyrrar, best að þær fljóti bara sofandi gegnum lífið, á meðan strákarnir hjala, sprikla og hafa hátt.
Í formála bókarinnar segja þær Liza og Lotta: "Það er farið með konur sem annars flokks verur í Svíþjóð í dag.
Við höfum verri möguleika en karlar á nær öllum sviðum.
Sá sem heldur öðru fram lýgur.
Þrátt fyrir gott gengi í kvennabaráttunni lendum við alls staðar í því að þurfa að hlusta á bull um jafnréttið í þjóðfélagi okkar: Að konur hafi sömu möguleika og karlar og það sé bara undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst. Ungar konur og eldri karlar fá sér í lagi mikið rými í fjölmiðlum þegar þau láta í ljós þessa vanþekkingu sína.
Þetta snýst nefnilega um vanþekkingu. Fólk sem ekki er búið að ná því að konur eru lægra settar í þjóðfélaginu en karlar hefur ekki lesið sér almennilega til. Það talar án þess að hafa fast land undir fótum og rannsóknir sýna annað. Það þarf bara að kynna sér þær."
Þótt höfundarnir tveir séu sænskir og fjalli um sænskt þjóðfélag, gæti bókin allt eins verið rituð um íslenskt þjóðfélag.
Lakari staða kvenna en karla hefur lengi verið mér hugleikin, en tvennt vakti mig sérstaklega til umhugsunar um hana nýlega.
Annars vegar var það ráðning í stöðu rektors Háskólans í Reykjavík. Áður en arftaki Guðfinnu S. Bjarnadóttur var kynntur voru miklar vangaveltur um hver hreppti hnossið. Ég heyrði eldri mann segja eitthvað á þá leið, að það "þyrfti ekki endilega" að ráða konu, því nú væri kona rektor við Háskóla Íslands. Í orðum hans lá að þar með hefðu konur fengið kvótann sinn. Þegar ég benti á að enn væri staðan nú ekki sú að konur hefðu með einhverjum hætti sölsað undir sig allar stöður sem fengur væri í var hann fljótur að draga þetta til baka. Því auðvitað tók hann rökum, honum var bara eðlislægt að líta öðruvísi á málin.
Svo var tilkynnt að Svafa Grönfeldt hefði fengið stöðuna. "Nú, önnur kona?" voru fyrstu viðbrögð margra. Á einni bloggsíðunni sá ég mann velta því fyrir sér, hvort þarna væri að myndast hefð.
Hefð? Að kona taki við starfi af konu? Öfugt við gömlu hefðina, þar sem karl tók ávallt við af karli? Eru menn kannski farnir að óttast að þetta valdi einhverjum usla? Guð láti gott á vita.
Mig grunar reyndar að Svafa hafi ekki fengið starfið af því að nú séu uppi einhverjir nýir straumar í ráðningum. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram að þessi lektor við HÍ til margra ára og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Actavis sé ekki vel að starfinu kominn. Megi henni farnast sem allra best.
"Óheppilega inngripið" sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á að hafa gerst sekur um fyrir prófkjör flokksins á dögunum vakti mig líka til umhugsunar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerðist svo gróf, að mati sumra karla og áreiðanlega einhverra kvenna, að minna sérstaklega á að konur þyrftu að fá brautargengi í prófkjörum. Hún mun vera þeirrar skoðunar að flokkurinn þurfi að geta boðið fram sterka liðsheild, sem endurspegli ákveðna breidd, bæði út frá landshlutum en ekki síður út frá kynjum.
Ja, svei! Getur það mögulega verið hlutverk varaformanns stjórnmálaflokks að velta fyrir sér hvernig sá flokkur setur saman framboðslista? Sumir myndu nú ætla það. Ég fæ alla vega ekki skilið hvernig þetta getur verið óheppilegt inngrip varaformannsins og konunnar Þorgerðar Katrínar, sem hefur áreiðanlega tekið eftir því hversu skarðan hlut konur hafa borið frá borði í prófkjörum flokks hennar. Það skiptir engu máli, þótt reynt sé að fegra niðurstöður með því að benda á að konur hafi fengið 5 af 12 sætum, eins og gert var í Reykjavík, þegar 3 af þessum 5 lendu í þremur neðstu sætunum. Ber Þorgerði Katrínu ekki skylda til að benda flokksmönnum á að velja svo á lista að þeir endurspegli þjóðfélagið, þjóðfélag karla og kvenna?
Þar að auki veit hún áreiðanlega, að það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri.
Þetta er heiti bókar, sem ég rakst á fyrir skömmu, en ummælin munu höfð eftir Madeleine Albright, fyrstu konunni sem varð utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Bókin er eftir tvær sænskar konur, hinn þekkta skáldsagnahöfund og blaðamann Lizu Marklund og Lottu Snickare, ráðgjafa í stjórnun.
Í bókinni rekja Liza og Lotta hvernig komið er öðruvísi fram við konur en karla allt frá frumbernsku, hvernig kynferðið vinnur gegn konum frá upphafi og þær nefna fjölmörg dæmi úr eigin lífi og annarra. Allar konur ættu að geta sett sig í spor þeirra, enda er þetta enginn nýr sannleikur, þótt bráðnauðsynlegt sé að hafa hann ávallt í huga.
Þær taka dæmi af ýmsum rannsóknum, til dæmis hvernig fólk kemur fram við kornabörn eftir ætluðu kyni þeirra. Börnin voru ýmist klædd í bleika eða ljósbláa samfestinga, óháð kyni, og svo var fylgst með viðbrögðum fólks. Og það féll allt í sömu gryfjuna, mælti blíðróma gæluorð við bleiku börnin, reyndi að róa þau og fá þau til að liggja kyrr, helst sofna. Bleiku börnin fengu mjúka dúkku til að halda á í fanginu. Bláu börnin voru hins vegar hvött til að hjala og sprikla, fólk talaði við þau af ákefð og hárri röddu, tók þau upp og hampaði þeim. Og rétti þeim hringlu eða hrossabrest til að slá í og hrista.
Mér sýnist sem þessi hegðun sé ekki bundin við viðbrögð fólks við smábörnum. Fullorðnar konur eiga helst að vera kyrrar, best að þær fljóti bara sofandi gegnum lífið, á meðan strákarnir hjala, sprikla og hafa hátt.
Í formála bókarinnar segja þær Liza og Lotta: "Það er farið með konur sem annars flokks verur í Svíþjóð í dag.
Við höfum verri möguleika en karlar á nær öllum sviðum.
Sá sem heldur öðru fram lýgur.
Þrátt fyrir gott gengi í kvennabaráttunni lendum við alls staðar í því að þurfa að hlusta á bull um jafnréttið í þjóðfélagi okkar: Að konur hafi sömu möguleika og karlar og það sé bara undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst. Ungar konur og eldri karlar fá sér í lagi mikið rými í fjölmiðlum þegar þau láta í ljós þessa vanþekkingu sína.
Þetta snýst nefnilega um vanþekkingu. Fólk sem ekki er búið að ná því að konur eru lægra settar í þjóðfélaginu en karlar hefur ekki lesið sér almennilega til. Það talar án þess að hafa fast land undir fótum og rannsóknir sýna annað. Það þarf bara að kynna sér þær."
Þótt höfundarnir tveir séu sænskir og fjalli um sænskt þjóðfélag, gæti bókin allt eins verið rituð um íslenskt þjóðfélag.
Lakari staða kvenna en karla hefur lengi verið mér hugleikin, en tvennt vakti mig sérstaklega til umhugsunar um hana nýlega.
Annars vegar var það ráðning í stöðu rektors Háskólans í Reykjavík. Áður en arftaki Guðfinnu S. Bjarnadóttur var kynntur voru miklar vangaveltur um hver hreppti hnossið. Ég heyrði eldri mann segja eitthvað á þá leið, að það "þyrfti ekki endilega" að ráða konu, því nú væri kona rektor við Háskóla Íslands. Í orðum hans lá að þar með hefðu konur fengið kvótann sinn. Þegar ég benti á að enn væri staðan nú ekki sú að konur hefðu með einhverjum hætti sölsað undir sig allar stöður sem fengur væri í var hann fljótur að draga þetta til baka. Því auðvitað tók hann rökum, honum var bara eðlislægt að líta öðruvísi á málin.
Svo var tilkynnt að Svafa Grönfeldt hefði fengið stöðuna. "Nú, önnur kona?" voru fyrstu viðbrögð margra. Á einni bloggsíðunni sá ég mann velta því fyrir sér, hvort þarna væri að myndast hefð.
Hefð? Að kona taki við starfi af konu? Öfugt við gömlu hefðina, þar sem karl tók ávallt við af karli? Eru menn kannski farnir að óttast að þetta valdi einhverjum usla? Guð láti gott á vita.
Mig grunar reyndar að Svafa hafi ekki fengið starfið af því að nú séu uppi einhverjir nýir straumar í ráðningum. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram að þessi lektor við HÍ til margra ára og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Actavis sé ekki vel að starfinu kominn. Megi henni farnast sem allra best.
"Óheppilega inngripið" sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á að hafa gerst sekur um fyrir prófkjör flokksins á dögunum vakti mig líka til umhugsunar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerðist svo gróf, að mati sumra karla og áreiðanlega einhverra kvenna, að minna sérstaklega á að konur þyrftu að fá brautargengi í prófkjörum. Hún mun vera þeirrar skoðunar að flokkurinn þurfi að geta boðið fram sterka liðsheild, sem endurspegli ákveðna breidd, bæði út frá landshlutum en ekki síður út frá kynjum.
Ja, svei! Getur það mögulega verið hlutverk varaformanns stjórnmálaflokks að velta fyrir sér hvernig sá flokkur setur saman framboðslista? Sumir myndu nú ætla það. Ég fæ alla vega ekki skilið hvernig þetta getur verið óheppilegt inngrip varaformannsins og konunnar Þorgerðar Katrínar, sem hefur áreiðanlega tekið eftir því hversu skarðan hlut konur hafa borið frá borði í prófkjörum flokks hennar. Það skiptir engu máli, þótt reynt sé að fegra niðurstöður með því að benda á að konur hafi fengið 5 af 12 sætum, eins og gert var í Reykjavík, þegar 3 af þessum 5 lendu í þremur neðstu sætunum. Ber Þorgerði Katrínu ekki skylda til að benda flokksmönnum á að velja svo á lista að þeir endurspegli þjóðfélagið, þjóðfélag karla og kvenna?
Þar að auki veit hún áreiðanlega, að það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri.
Subscribe to:
Posts (Atom)