Thursday, January 04, 2007

Leikskóli og linsubaunir

Skilningur minn á gammablossum og þyngdarlinsum eykst með hverjum viðræðugóða doktornum sem ég heyri í. Það er afskaplega gott, enda fyrsta regla blaðamanna að vita eitthvað í sinn haus um viðfangsefnið, ef einhver von á að vera til þess að miðla því til annarra.

Í hádeginu í dag ætlar arkitekt að kíkja á eldhúskrókinn okkar, við þurfum að afmarka hann frá stofunni. Það verður hið skemmtilegasta viðfangsefni. Svo vona ég að fulltrúi Öryggismiðstöðvarinnar birtist líka og láti okkur fá aðeins minna stjórnborð en það sem fylgdi húsinu og var á stofuveggnum. Það er eins og veggsjónvarp og býr yfir frekar ógnvekjandi kvenmannsrödd. Þegar húsið er yfirgefið og lykilnúmer slegið inn segir konan áköf og í sífellu: Please leave the area, please leave the area... Ég verð alltaf óskaplega stressuð og líður eins og ég hafi laumast inn á háheilagt svæði. Vonandi fáum við bara lítinn kubb með talnaborði í anddyrið.

Af familíunni er annars það að frétta að í fyrsta sinn á stuttri ævi kvíðir Margrét fyrir að fara í leikskólann. Um áramót byrjaði nýr kokkur, sem eldar bara grænmetisfæði. Margrét mín er frekar matvönd, vildi helst borða þykkmjólk og franskbrauð eða rúgbrauð í öll mál. Á góðum degi borðar hún þó fisk og kjöt. Hún á afskaplega bágt með linsubaunirnar á leikskólanum. Hvað er til ráða? Verðum við bara að sætta okkur við að hún sé svöng fram að síðdegiskaffinu, þegar hún fær brauðsneið? Hún getur ekki einu sinni borðað uppáhaldið sitt, grjónagraut, á leikskólanum, því hann er núna úr híðishrísgrjónum og klíði eða einhverju álíka lystaukandi. Ég er ekki lukkuleg með þetta, hefði helst viljað að þær systur fengju áfram venjulegan heimilismat. Elísabet lifir þetta örugglega af, enda alæta, en Margrét fór að gráta í gærkvöldi við tilhugsunina um hádegismatinn í dag. Ég skil hana afskaplega vel.

No comments: