Dætur mínar fengu margar góðar gjafir á jólunum. Bækur og bíómyndir, föt og alls konar leikföng, sem of langt mál væri að telja upp hér.
Fyrir jólin fórum við nokkrum sinnum í leikfangaverslanir, enda þurfti að kaupa ýmislegt fyrir frændur og frænkur. Þeim fannst margt freistandi, en annað alveg út í hött. Ég sýndi þeim til dæmis fótboltaspil, þetta gamla góða, þar sem litlir plastkarlar á gormi keppa, með dyggri aðstoð stjórnenda. Þær horfðu á mig eins og ég væri eitthvað undarleg. "Þetta er strákadót!" sögðu þær einum rómi.
Á aðfangadagskvöld kom Daníel frændi þeirra í heimsókn. Hann fékk fótboltaspil í jólagjöf og áður en við vissum af voru stelpurnar ljómandi af gleði og áhuga að leika með honum. Þegar þær voru loks skriðnar upp í rúm á jólanótt spurði ég þær hvort þeim hefði þótt gaman að spila fótboltaspilið. "Já, mjög gaman," sagði Elísabet. Það svar segir kannski ekki alla söguna, því líklega gæti hún skemmt sér stórkostlega við að horfa á átrúnaðargoðið Daníel leggja kapal. Margrét staðfesti hins vegar að fótboltaspil væri afskaplega skemmtilegt. Og þá spurði ég, eins og í leikfangabúðinni, hvort þær vildu kannski eignast svona. "Nei, eða jú kannski," svaraði Elísabet og hefur áreiðanlega séð fyrir sér að Daníel myndi þá alltaf leika við hana þegar hann kæmi í heimsókn. Margrét spurði hins vegar á móti: "Er til svona spil með stelpum?"
Ég er búin að leita á Netinu, en finn engin fótboltaspil þar sem litlu plastkapparnir eru stelpur. Hetjurnar á fótboltavellinum eru strákar og svoleiðis dót vilja stelpurnar mínar ekki, þótt það sé skemmtilegt. Þær hafa nefnilega afskaplega fastmótaðar hugmyndir um hvað telst strákadót og hvað stelpudót. Í herberginu þeirra eru leikföng upp um alla veggi, en samt lýsti Margrét því yfir um daginn, að við yrðum að kaupa strákadót. Drengurinn sem hún elskar er nefnilega nýfluttur í hverfið og hún vill taka á móti honum með stæl.
Útlitið ræður því helst hvað þær systur telja stráka- og stelpudót. Þær hristu báðar höfuðið yfir vitleysunni í mömmunum þegar við sýndum þeim litlar smásjár. Þessi silfruðu og gráu vísindatæki voru sko alls ekki heillandi. En svo rakst Kata á bleikar smásjár og núna grúfa þær sig yfir þær og býsnast yfir munstrinu á fluguvæng og örlítilli tréflís. Það er ekkert strákalegt við það.
Þær fengu líka bleik Barbie-labbrabb-tæki og þau eru alveg frábær. Ég er sannfærð um að blá labbrabb-tæki hefðu verið algjörlega gagnslaus að mati tveggja tæplega sex ára systra.
Mikið vildi ég að framleiðendur leikfanga væru duglegri að taka við sér og áttuðu sig á að stundum er alveg nóg að skipta um lit til að sama vara höfði til stráka og stelpna.
Þegar ég leitaði sérstaklega eftir stelpuleikföngum á Netinu kom alltaf svipaður listi upp: Tuskudýr, Disney-prinsessur af öllum gerðum, Barbie- og Bratz-dúkkur, dúkkuhús, litlir bökunarofnar og ryksugur, perlur til að búa til skartgripi og ýmislegt annað föndurdót.
Sambærilegur listi fyrir stráka inniheldur kappakstursbrautir, fjarstýrðar risaeðlur, sjóræningjakastala, alls konar kubba og byggingarsett, bíla sem þeir geta sjálfir setið í, talstöðvar, fjarstýrðar flugvélar, tölvuleiki og geimverubúninga.
Skilaboðin eru auðvitað augljós. Þær eiga að sitja og dunda sér, þeir eiga að skella sér í hasarinn. Ég veit hins vegar, sem móðir tveggja tæplega sex ára stelpna, að þær vilja gjarnan leika sér með bíla og kappakstursbrautir, talstöðvar og smásjár, svo framarlega sem slíkt dót er "stelpulegt", og þær geta unað sér tímunum saman við að byggja úr seguldótinu, enda margir bleikir pinnar þar innan um. Fyrir jólin vildi Elísabet ólm eignast "svona flugvél sem getur keyrt og það er hægt að opna hana og setja fólk inn í hana og það eru ljós", en þær flugvélar sem við sáum í leikfangabúðum voru allar "strákalegar". Og Margrét vildi fjarstýrðan bíl, en þar var hið sama upp á teningnum, við fundum engan sem var nógu "stelpulegur".
Mér finnst fjári hart hvað það er erfitt að verða við óskum dætra minna, sem vilja ekki bara sitja og dunda sér við tuskudýr og dúkkur, eða leika með eftirlíkingar af heimilistækjum. Það eina sem þær fara fram á er að dótið þeirra líti "stelpulega" út, en þær vilja svo gjarnan leika með allt það dót, sem annars telst víst hefðbundið strákadót.
Þegar ég var lítil langaði mig í riffil eins og Kristján bróðir fékk, en þá hefði líklega aldrei hvarflað að nokkrum manni að gefa stelpu slíkan grip og núna fá auðvitað engin börn vopn. Samstarfskona mín ein fékk forláta leikfangaryksugu á meðan bróðir hennar hljóp um allt hverfið með háværa vélbyssu. Hún hefur ekki enn fyrirgefið þá mismunun. Og önnur samstarfskona mín er enn dálítið sár af því að hún fékk ekki Mekkano til að byggja úr. Bara af því að hún var stelpa og gerði hún þó engar kröfur um að það væri bleikt. Stelpur áttu einfaldlega ekki að leika sér með byggingarsett.
Það er löngu liðin tíð að fólki þyki sjálfsagt að hann fái bók, en hún nál og tvinna, eins og sungið er um í jólalaginu. En ef þau vilja bæði fjarstýrðan bíl, ætti auðvitað að vera sjálfsagt að þau geti valið þann sem þeim finnst fallegastur. Annar verður þá kannski fagurblár, en hinn bleikur með glimmerskrauti.
Monday, January 08, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Gott komment....þær eru allavega alltaf velkomnar að leika með "bláa-strákadótið" í Garðabænum....er viss um að þær fengju útrás í því. :)
ohh hvað ég man hvað þér þótti gaman að versla allt bleika dótið í Brussel á sínum tíma.. geislaði af þér eftirvæntng og gleði.. ef ég man rétt þá læddist þú snemma út af hótelinu til þess að geta verslað þessa dýrgripi í ró og næði..
Leifur
Leifur, ég játa að ég keypti bleik föt eins og mér væri borgað fyrir það ;) Enda væru þær systur líklega naktar ef það væru ekki til bleik glimmerföt!
Frábær athugasemd hjá Margréti: "Er til svona spil með stelpum" !! Er það ekki einmitt málið? Þyrfti það endilega að vera bleikt líka?
Það hefur aldrei hvarflað að mér fyrr að það væri hægt að búa til fótboltaspil með stelpum og lék ég mér þó mikið með svona spil í "den"...en Kristján bróðir átti það auðvitað!
Post a Comment