Friday, January 05, 2007

Brúðkaupsafmæli

Í dag eru 6 ár liðin frá því að við stormuðum á peysunum til sýslumannsins í Reykjavík. Addý og Bára voru vígsluvottar, en aðrir voru ekki viðstaddir. Nema tvíburasysturnar auðvitað, því Kata var kasólétt, svo það var nú ekki seinna vænna að hnýta hnútinn. Og "brúðkaupsveislan" var smörrebröd og öl á Jómfrúnni. Það er greinilegt að í þessu tilviki var umstangið í öfugu hlutfalli við lánið og lukkuna.
Stelpurnar okkar eru enn að spyrja út í brúðkaupið og skilja ekkert í því af hverju við eigum ekki myndir af okkur í glæsilegum brúðarkjólum. Við stungum upp á að bæta úr því með stórveislu og hvítum kjólum, en þeim finnst það auðvitað svindl.
Kata ætlar að bjóða mér á Sjávarkjallarann í hádeginu ;)

5 comments:

Anonymous said...

Innilega til hamingju með daginn Ragnhildur og Kata! Það er greinilegt að hvítur kjóll, 200 gestir og hljómsveit er ekki málið til að allt gangi upp. Spurning hvort yfirlið geti flokkast undir svona jaðartilvik sem ýtir enn frekar undir lánið til langs tíma litið líkt og lopapeysurnar, vona það svo sannarlega.

Knús, Olla.

Ragnhildur said...

Olla! Á ég virkilega að skilja þetta svo að það hafi liðið yfir prestmaddömuna við eigið brúðkaup? Ef svo er, þá fellur það undir "fall er fararheill".
Til hamingju, mín kæra. Smelltu kossi á prestinn.

Anonymous said...

Jah.. ég verð að játa að mér þætti með eindæmum skemmtilegt að sjá Ragnhildi í svona kremhvítum marengskjól, með púffermum og öllu tilheyrandi! Hahaha... oh.. bara tilhugsunin! Svo væri þetta líka úber skemmtilegt því það yrðu væntanlega tveimur brúðarvöndum kastað.. ha ha meiri séns fyrir moi.
Gleðilegt árið!
Kv. Magga

Ragnhildur said...

Ég gæti þess að sjálfsögðu að bjóða engum í brúðkaupið nema þeim sem geta stillt sig um að pissa í buxurnar af hlátri þegar ég birtist eins og rjómaterta. Þú skalt ekkert hanga við bréfalúguna og bíða eftir boðskorti, Margrét Ósk!

Anonymous said...

ég myndi borga mig inn á svona skemmtun ;)

Leifur