Tuesday, January 16, 2007

Flutt

Farin yfir á www.ragnhildur.blog.is
Sú síða er enn forljót, satt best að segja, en ég laga það á næstunni

Monday, January 15, 2007

blog.is

Mér rennur blóðið til skyldunnar. Á morgun ætla ég að færa mig yfir á Moggabloggið.
Nánar síðar.

Skór með kisu

Ballettstelpurnar mínar voru alsælar eftir fyrstu fótboltaæfinguna. Margrét var alltaf mjög spennt fyrir boltanum og æfingin dró ekkert úr. Elísabet var hins vegar kvíðin og aum, en um leið og æfingin hófst uppgötvaði hún stóra sannleikann. Hún tilkynnti strax eftir æfingu að hún ætlaði sko aftur.
Við fórum beint í Kringluna að kaupa fótboltaskó. Elísabet, sem hefur aldrei litið við öðru en því sem er bleikt og glitrandi, keypti sér svarta og silfraða Adidas-skó, því þannig eru fótboltaskór í hennar huga. Í ljós kom að afgreiðslustúlkan í búðinni var félagi þjálfarans þeirra í meistaraflokki Vals og það skemmdi nú ekki fyrir.
Margrét leit ekki við Adidas-skólnum. Hún vildi "kisuskó", svo við þurftum að fara í aðra búð til að finna þá. Kisuskór eru nefnilega Puma-skór. Hún fann glæsilega svarta og hvíta skó, með alls 8 kisum!
Systurnar fengust ekki úr skónum í allan gærdag og æfðu fótbolta með tilþrifum í herberginu sínu.
Gott mál.

Sunday, January 14, 2007

Fótboltakvóti

Stelpurnar mínar eru á fótboltaæfingu. Mér líst ágætlega á fótboltann sem eins konar "móteitur" við öllum þessum ballett.
Kata fór með þær og þess vegna eru þær auðvitað í Valsheimilinu. Og ég sem sá flutning okkar í Fossvoginn sem fullkomna sátt: Víkingar hafa alltaf notað rauða og svarta búninga, Kata fengi þá rauða Valslitinn og ég svörtu KR-rendurnar. Sú sátt virðist nú rofin.
Að öðru: Ég hef forðast það skrítna fyrirbæri Útvarp Sögu eins og pestina, en vitað af því að þar fara menn meðal annars með hatri og illmælum gegn Margréti systur minni. Ég lét mig hafa það að hlusta á einn slíkan snillinginn á föstudag. Hann var svo óðamála í bullinu að vart skildist og ekki var skárri sá sem hringdi inn og rabbaði við hann. Þeir sneru svo málinu að karli föður mínum, en þegar þeir voru sammála um að lítið hefði heyrst frá Sverri Hermannssyni um kvótamál þá var mér allri lokið.
Lítið heyrst frá Sverri Hermannssyni um kvótamál???
Þá hló ég nú með öllum kjaftinum!

Tuesday, January 09, 2007

Almennur eymingjaskapur

Einhver eymingjaskapur að hrjá mig í dag, fór ekki í vinnu og er búin að vera eins og undin tuska. Ekkert sérstakt, einna helst einhverjar innantökur, en annars bara slen. Ég er sem sagt með einhverja linku "yfir höfuð", eins og er yfirskrift allra kafla í gömlu lækningabókinni sem pabbi á. Ég skildi ekkert í þessu sem krakki, "Bakverkur yfir höfuð" og "Fótamein yfir höfuð" voru tveir kaflar. Svo kastaði tólfunum þegar ég sá kaflaheitið "Höfuðverkur yfir höfuð".
Í dag myndu kaflarnir líklega heita "Verkur í baki aðila", eða "Fótamein sem illur valkostur" eða "Höfuðverkur sem óásættanleg niðurstaða".
Vonda mállýskan í dag er nefnilega ekkert skárri þessari dönskuskotnu i den.

Monday, January 08, 2007


Candyfloss fabrikkan

Ballettskóli Eddu Scheving er eins og candyfloss-fabrikka, allt bleikt og sykursætt ;)
Systurnar eru númer 2 (Margrét) og 3 (Elísabet) frá vinstri.

Bleiku jólagjafirnar (Viðhorf í Mbl. 6. jan)

Dætur mínar fengu margar góðar gjafir á jólunum. Bækur og bíómyndir, föt og alls konar leikföng, sem of langt mál væri að telja upp hér.
Fyrir jólin fórum við nokkrum sinnum í leikfangaverslanir, enda þurfti að kaupa ýmislegt fyrir frændur og frænkur. Þeim fannst margt freistandi, en annað alveg út í hött. Ég sýndi þeim til dæmis fótboltaspil, þetta gamla góða, þar sem litlir plastkarlar á gormi keppa, með dyggri aðstoð stjórnenda. Þær horfðu á mig eins og ég væri eitthvað undarleg. "Þetta er strákadót!" sögðu þær einum rómi.
Á aðfangadagskvöld kom Daníel frændi þeirra í heimsókn. Hann fékk fótboltaspil í jólagjöf og áður en við vissum af voru stelpurnar ljómandi af gleði og áhuga að leika með honum. Þegar þær voru loks skriðnar upp í rúm á jólanótt spurði ég þær hvort þeim hefði þótt gaman að spila fótboltaspilið. "Já, mjög gaman," sagði Elísabet. Það svar segir kannski ekki alla söguna, því líklega gæti hún skemmt sér stórkostlega við að horfa á átrúnaðargoðið Daníel leggja kapal. Margrét staðfesti hins vegar að fótboltaspil væri afskaplega skemmtilegt. Og þá spurði ég, eins og í leikfangabúðinni, hvort þær vildu kannski eignast svona. "Nei, eða jú kannski," svaraði Elísabet og hefur áreiðanlega séð fyrir sér að Daníel myndi þá alltaf leika við hana þegar hann kæmi í heimsókn. Margrét spurði hins vegar á móti: "Er til svona spil með stelpum?"
Ég er búin að leita á Netinu, en finn engin fótboltaspil þar sem litlu plastkapparnir eru stelpur. Hetjurnar á fótboltavellinum eru strákar og svoleiðis dót vilja stelpurnar mínar ekki, þótt það sé skemmtilegt. Þær hafa nefnilega afskaplega fastmótaðar hugmyndir um hvað telst strákadót og hvað stelpudót. Í herberginu þeirra eru leikföng upp um alla veggi, en samt lýsti Margrét því yfir um daginn, að við yrðum að kaupa strákadót. Drengurinn sem hún elskar er nefnilega nýfluttur í hverfið og hún vill taka á móti honum með stæl.
Útlitið ræður því helst hvað þær systur telja stráka- og stelpudót. Þær hristu báðar höfuðið yfir vitleysunni í mömmunum þegar við sýndum þeim litlar smásjár. Þessi silfruðu og gráu vísindatæki voru sko alls ekki heillandi. En svo rakst Kata á bleikar smásjár og núna grúfa þær sig yfir þær og býsnast yfir munstrinu á fluguvæng og örlítilli tréflís. Það er ekkert strákalegt við það.
Þær fengu líka bleik Barbie-labbrabb-tæki og þau eru alveg frábær. Ég er sannfærð um að blá labbrabb-tæki hefðu verið algjörlega gagnslaus að mati tveggja tæplega sex ára systra.
Mikið vildi ég að framleiðendur leikfanga væru duglegri að taka við sér og áttuðu sig á að stundum er alveg nóg að skipta um lit til að sama vara höfði til stráka og stelpna.
Þegar ég leitaði sérstaklega eftir stelpuleikföngum á Netinu kom alltaf svipaður listi upp: Tuskudýr, Disney-prinsessur af öllum gerðum, Barbie- og Bratz-dúkkur, dúkkuhús, litlir bökunarofnar og ryksugur, perlur til að búa til skartgripi og ýmislegt annað föndurdót.
Sambærilegur listi fyrir stráka inniheldur kappakstursbrautir, fjarstýrðar risaeðlur, sjóræningjakastala, alls konar kubba og byggingarsett, bíla sem þeir geta sjálfir setið í, talstöðvar, fjarstýrðar flugvélar, tölvuleiki og geimverubúninga.
Skilaboðin eru auðvitað augljós. Þær eiga að sitja og dunda sér, þeir eiga að skella sér í hasarinn. Ég veit hins vegar, sem móðir tveggja tæplega sex ára stelpna, að þær vilja gjarnan leika sér með bíla og kappakstursbrautir, talstöðvar og smásjár, svo framarlega sem slíkt dót er "stelpulegt", og þær geta unað sér tímunum saman við að byggja úr seguldótinu, enda margir bleikir pinnar þar innan um. Fyrir jólin vildi Elísabet ólm eignast "svona flugvél sem getur keyrt og það er hægt að opna hana og setja fólk inn í hana og það eru ljós", en þær flugvélar sem við sáum í leikfangabúðum voru allar "strákalegar". Og Margrét vildi fjarstýrðan bíl, en þar var hið sama upp á teningnum, við fundum engan sem var nógu "stelpulegur".
Mér finnst fjári hart hvað það er erfitt að verða við óskum dætra minna, sem vilja ekki bara sitja og dunda sér við tuskudýr og dúkkur, eða leika með eftirlíkingar af heimilistækjum. Það eina sem þær fara fram á er að dótið þeirra líti "stelpulega" út, en þær vilja svo gjarnan leika með allt það dót, sem annars telst víst hefðbundið strákadót.
Þegar ég var lítil langaði mig í riffil eins og Kristján bróðir fékk, en þá hefði líklega aldrei hvarflað að nokkrum manni að gefa stelpu slíkan grip og núna fá auðvitað engin börn vopn. Samstarfskona mín ein fékk forláta leikfangaryksugu á meðan bróðir hennar hljóp um allt hverfið með háværa vélbyssu. Hún hefur ekki enn fyrirgefið þá mismunun. Og önnur samstarfskona mín er enn dálítið sár af því að hún fékk ekki Mekkano til að byggja úr. Bara af því að hún var stelpa og gerði hún þó engar kröfur um að það væri bleikt. Stelpur áttu einfaldlega ekki að leika sér með byggingarsett.
Það er löngu liðin tíð að fólki þyki sjálfsagt að hann fái bók, en hún nál og tvinna, eins og sungið er um í jólalaginu. En ef þau vilja bæði fjarstýrðan bíl, ætti auðvitað að vera sjálfsagt að þau geti valið þann sem þeim finnst fallegastur. Annar verður þá kannski fagurblár, en hinn bleikur með glimmerskrauti.

Friday, January 05, 2007

Brúðkaupsafmæli

Í dag eru 6 ár liðin frá því að við stormuðum á peysunum til sýslumannsins í Reykjavík. Addý og Bára voru vígsluvottar, en aðrir voru ekki viðstaddir. Nema tvíburasysturnar auðvitað, því Kata var kasólétt, svo það var nú ekki seinna vænna að hnýta hnútinn. Og "brúðkaupsveislan" var smörrebröd og öl á Jómfrúnni. Það er greinilegt að í þessu tilviki var umstangið í öfugu hlutfalli við lánið og lukkuna.
Stelpurnar okkar eru enn að spyrja út í brúðkaupið og skilja ekkert í því af hverju við eigum ekki myndir af okkur í glæsilegum brúðarkjólum. Við stungum upp á að bæta úr því með stórveislu og hvítum kjólum, en þeim finnst það auðvitað svindl.
Kata ætlar að bjóða mér á Sjávarkjallarann í hádeginu ;)

Thursday, January 04, 2007

Leikskóli og linsubaunir

Skilningur minn á gammablossum og þyngdarlinsum eykst með hverjum viðræðugóða doktornum sem ég heyri í. Það er afskaplega gott, enda fyrsta regla blaðamanna að vita eitthvað í sinn haus um viðfangsefnið, ef einhver von á að vera til þess að miðla því til annarra.

Í hádeginu í dag ætlar arkitekt að kíkja á eldhúskrókinn okkar, við þurfum að afmarka hann frá stofunni. Það verður hið skemmtilegasta viðfangsefni. Svo vona ég að fulltrúi Öryggismiðstöðvarinnar birtist líka og láti okkur fá aðeins minna stjórnborð en það sem fylgdi húsinu og var á stofuveggnum. Það er eins og veggsjónvarp og býr yfir frekar ógnvekjandi kvenmannsrödd. Þegar húsið er yfirgefið og lykilnúmer slegið inn segir konan áköf og í sífellu: Please leave the area, please leave the area... Ég verð alltaf óskaplega stressuð og líður eins og ég hafi laumast inn á háheilagt svæði. Vonandi fáum við bara lítinn kubb með talnaborði í anddyrið.

Af familíunni er annars það að frétta að í fyrsta sinn á stuttri ævi kvíðir Margrét fyrir að fara í leikskólann. Um áramót byrjaði nýr kokkur, sem eldar bara grænmetisfæði. Margrét mín er frekar matvönd, vildi helst borða þykkmjólk og franskbrauð eða rúgbrauð í öll mál. Á góðum degi borðar hún þó fisk og kjöt. Hún á afskaplega bágt með linsubaunirnar á leikskólanum. Hvað er til ráða? Verðum við bara að sætta okkur við að hún sé svöng fram að síðdegiskaffinu, þegar hún fær brauðsneið? Hún getur ekki einu sinni borðað uppáhaldið sitt, grjónagraut, á leikskólanum, því hann er núna úr híðishrísgrjónum og klíði eða einhverju álíka lystaukandi. Ég er ekki lukkuleg með þetta, hefði helst viljað að þær systur fengju áfram venjulegan heimilismat. Elísabet lifir þetta örugglega af, enda alæta, en Margrét fór að gráta í gærkvöldi við tilhugsunina um hádegismatinn í dag. Ég skil hana afskaplega vel.